139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

Landeyjahöfn og næstu skref í samgöngum milli lands og Eyja.

[11:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að Landeyjahöfnin hafi ekki verið mikið opin sýndi hún svo sannarlega á mjög stuttum tíma hversu miklu máli hún skiptir fyrir Vestmannaeyinga, fyrir Suðurlandið allt og í raun og veru alla Íslendinga. Þess vegna hafa það verið mjög sár vonbrigði, ekki hvað síst í Vestmannaeyjum, hve erfiðlega hefur gengið að halda höfninni opinni. Bæjarstjóri Vestmannaeyja, Elliði Vignisson, benti í grein á að Landeyjahöfnin er ekki fullbyggð, verkefninu er ekki lokið. Því verður ekki lokið fyrr en hægt verður að standa við það loforð að höfnin sé framtíðarlausn í samgöngumálum Vestmannaeyinga og að tryggðar séu öruggar ferðir með einungis 5–10% frátöfum. Þetta var sagt í upphafi, þessu trúðum við og þetta er það sem þarf að standa við.

Það er ýmislegt sem hefur farið úrskeiðis. Eins og hæstv. ráðherra fór í gegnum má svo sem segja að svo virðist sem menn hafi ekki reiknað með eldgosi. En ég verð hins vegar að segja að það er mjög einkennilegt vegna þess að það hefur sýnt sig margítrekað að Suðurlandið er eitt af virkustu svæðunum hvað varðar eldgos, bæði í Vestmannaeyjum sjálfum og síðan hafa verið skipulagðar ýmsar æfingar til að bregðast við eldgosum á þessu svæði í Rangárvallasýslu.

Það má líka benda á sögulega staðreynd sem Siglingastofnun og ráðuneytið hefðu þurft að hafa í huga á sínum tíma. Dráttarskip var staðsett í Vestmannaeyjum fyrir gos sem mér skilst að hafi nánast daglega mokað þegar það var opið þar inn. Það hefur alltaf verið mikill sandur undir suðurströndinni, þetta er sandströnd. Ég hef töluverðar áhyggjur af því (Forseti hringir.) að ráðherrann taki ekki bara af skarið og segi að það eigi að setja upp varanlegan dælubúnað í hafnarmynninu strax vegna þess að þetta eru aðstæður sem fara ekkert í burtu.