140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

endurreisn SpKef.

[10:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var margframkvæmt mat á þessu eignasafni, sparisjóðurinn stóð fyrir því sjálfur, Fjármálaeftirlitið hlutaðist til um það að fengnir væru óháðir utanaðkomandi aðilar til að reyna að meta þetta eignasafn. En við höfum eitthvað kynnst því í umræðum hér á Alþingi undanfarin þrjú ár að það er hægara sagt en gert að meta nákvæmlega eignasöfn á óvissutíma af þessu tagi eins og reyndar sést t.d. á muninum sem var á milli mats í höndum ríkisins og mats Landsbankans — Landsbankinn taldi sig þurfa 30 milljarða, niðurstaðan varð 19 en ríkið var með mat í höndunum upp á 11. Það sýnir ósköp einfaldlega óvissuna sem í þessu er. Það var margreynt að meta þetta safn og því miður var það þannig að yfirleitt sýndi hvert nýtt mat verri stöðu en það sem á undan var komið. Í grunninn var það útlánastarfsemin, skortur á tryggingum, gríðarleg áhætta sem greinilega var tekin þarna í rekstri sparisjóðsins og ógætileg stjórnun sem er vandinn. Auðvitað má velta ýmsu fyrir sér eftir á. Hefði verið ódýrara að taka stofnunina niður fyrr í stað þess að gefa henni færi á því að reyna að leysa sín mál eins og heimamenn að sjálfsögðu vildu og báðu um og sóttu um — fresti til að fá tíma til að uppfylla eiginfjárkröfur o.s.frv. Það er auðvelt að reyna að vera vitur eftir á í þessum efnum en það á náttúrlega við um þetta mál allt saman, allt bankahrunið á Íslandi, það er geysilega auðvelt að vera vitur eftir á og sumir eru alveg snillingar í því.