143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[10:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef við viljum ræða efnislega um þessa þætti, þ.e. lokafjárlögin og þessar svokölluðu halaklippingar, getum við rætt þá mjög ítarlega. Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, þetta snýst um jafnræði. Það er hins vegar örugglega erfitt að koma með einhverja reglu sem nær yfir öll tilvik. Hér var nefndur Landspítalinn, hann var rekinn með halla í áratugi. Alla jafna var bætt úr því með aukafjárveitingum í fjáraukalögum og þótti mönnum það eðlilegt fyrirkomulag og mikil pressa úr þjóðfélaginu að gera það, réttara sagt frá fjölmiðlum aðallega á þeim tíma.

Það var hins vegar tekið mjög á því í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og komið á faglegri stjórn á spítalanum. Þá hófst tímabil þar sem Landspítalinn náði endum saman. Það var hins vegar gert með þeim formerkjum að hann fengi að njóta þess. Stjórnendur þar gengu á undan með góðu fordæmi fyrir heilbrigðisstofnanir. Sem betur fer gekk það eftir og hefur gengið að stærstum hluta eftir á undanförnum árum. Svo er alltaf spurningin hvenær menn taka endanlega á því, en stofnunin breyttist frá því að vera stofnun sem var kannski mest til vandræða í ríkisrekstrinum í það að vera til fyrirmyndar hvað þessa hluti varðar. Út frá þeim forsendum held ég að það sé réttlætanlegt og einhvern tímann þarf að taka á þessu máli.

Það hefur komið fram ósk um að fara með málið inn í fjárlaganefnd á milli umræðna. Ég býst við að við þurfum að finna einhvern flöt á því þó að það sé erfitt á lokadegi hjá okkur í þinginu. Ég held að það sé ekkert óljóst í þessu máli. Þetta liggur allt fyrir klippt og skorið. Síðan geta menn haft ýmsar skoðanir á þessu. En ef menn vilja ræða Landspítalann er sagan sú að stjórnendur þar hafa svo sannarlega tekið til hendinni á undanförnum árum, í raun frá árinu 2008. Ég held að menn vilji ekki refsa fyrir að menn hafi sýnt ráðdeild og sparsemi og farið í það að taka á rekstri spítalans, enda væri það vægast sagt ósanngjarnt.