144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um siðareglur, en á dagskrá þingsins er umræða um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og hljóðar 8. gr. þess frumvarps svo, með leyfi forseta:

„Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum. Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal ráðuneytið hafa reglulegt samráð við þau embætti.“

Lykilorðin hér eru fræðsla og samráð. Ef við gefum okkur að ásýnd (Gripið fram í.) sé ásköpuð og áunnin afleiðing af hegðun og orðfæri sem við beitum, birtingarmynd leikáætlunar og stjórnmálaskoðana og skapast á löngum tíma, er það ærið langtímaverkefni að breyta eða bæta þá ásýnd sem við viljum að sé á störfum okkar í þingsal. Við þurfum þá að koma okkur saman um hvaða ásýnd við viljum raunverulega skapa. Við viljum ekki gefa eftir andstæð sjónarmið. Við viljum ekki gefa eftir stjórnmálalegar skoðanir, en við yrðum mögulega að koma okkur saman um þá nálgun stjórnmálanna sem birtist í átökum meiri og minni hluta og það án þess að gefa leikáætlunina upp eða eftir.

Siðareglur fyrir alþingismenn er að finna á þskj. 1338 og er tilgangur þeirra m.a. að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra svo og að skapa tiltrú og traust. Þar er að finna meginreglur um hátterni og hátternisskyldur. Við getum byrjað þar, virðulegi forseti, en þær reglur ná skammt ef þær verða ekki hluti af daglegri umræðu, fræðslu og samráði, (Forseti hringir.) sömu lykilhugtök fræðslu og samráði þingflokka um viðmið til eftirbreytni og fagmennsku.