149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það voru mér mikil vonbrigði þegar ég áttaði mig á því kl. 7 í morgun að dagskrá þingsins var ekkert í samræmi við það sem rætt var um á þingflokksformannafundi í gær. Forseti þingsins er forseti okkar allra. Hann er a.m.k. minn forseti. Þess vegna voru það sár vonbrigði að hér ætti að keyra í gegn dagskrá sem ekki hefur verið fjallað um á þingflokksformannafundi eða samkomulag gert um.

Forseti veit jafn vel og ég að á þessum tímapunkti eru í gangi samningaviðræður um hvernig við göngum frá málum. Ef hér á allt að ganga vel er farið í dagskrána í samkomulagi. Hins vegar kemur það ríkisstjórninni afskaplega vel að beina kastljósinu að stjórnarandstöðunni núna þegar ríkisstjórnin er í bullandi vandræðum með fjármálaáætlun sem ekki er enn komin inn í þingið. (Forseti hringir.) Það veldur mér vonbrigðum ef það er möguleiki á því að hæstv. forseti sé að þjóna þessum þörfum ríkisstjórnarinnar með dagskránni í dag.