149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[17:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þessi viðbrögð. Ég veit að við deilum ekki skoðunum á þungunarrofi og ég sætti mig alveg fullkomlega við það. Ég held hins vegar að við séum að einhverju leyti sammála um að það sé brýnt og gott að fólk sem er í vanda statt, fólk sem á við fíkn að stríða eða er í einhverjum slíkum nauðum statt, eigi kost á því að fá ókeypis getnaðarvarnir og bara yfirleitt alla þá hjálp í lífinu sem það þarf á að halda og getur orðið til þess að létta því lífið.

Ég tel raunar að getnaðarvarnir eigi að vera á boðstólum sem víðast og handa sem flestum og gegn engu gjaldi. En ég var eingöngu með þessum orðum mínum að andæfa tilhneigingunni til að setja ákveðið samasemmerki á milli þungunarrofs, og ég er ekkert viss um að sú hafi endilega verið ætlun hv. þingmanns, og svo aftur þess að hafa ekki greiðan aðgang að getnaðarvörnum, vegna þess að ég vil mótmæla því að fólk noti þungunarrof sem nokkurs konar síðbúna getnaðarvörn.