149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil koma að tveimur atriðum. Það hefur þó nokkuð verið rætt í umræðunni um fjármögnun á áætluninni. Ég vil segja að hv. framsögumaður, Andrés Ingi Jónsson, hélt afar vel utan um þetta mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ber að þakka fyrir það. Þetta er stórt mál og viðamikil áætlun eins og nefndarálitið ber með sér.

Ég held að það sé afar skynsamleg nálgun sem farin er og má lesa í nefndaráliti á bls. 6 þar sem nefndin beinir því til ábyrgðaraðila hverrar aðgerðar að leggja áherslu á að ná fram þeim markmiðum sem aðgerðin á að ná fram og að tilsvarandi ráðuneytið tryggi þá fjármuni sem útfærðar aðgerðir kalla eftir. Ítrekað er að ekki var tímabært að leggja til breytingar á fyrirliggjandi kostnaðaráætlun sem fylgir tillögunni þar sem slík endurskoðun mun kalla á ítarlegri greiningu á hverju verkefni en efni standa til og hefði verið hægt eða gerlegt fyrir nefndina. Ég vildi bara draga þetta fram, virðulegi forseti.

Í hinn staðinn er snertiflöturinn við #metoo-byltinguna og önnur mál sem hafa spilað saman við þetta mál og er greint frá því í nefndarálitinu á bls. 4 í kafla III um gæðakröfur og vottun um fyrirmyndarstarf í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ég ætla einnig að draga fram lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, mál 417, sem við höfum þegar afgreitt á þessu þingi og finnst ástæða til að árétta að þegar við horfum til hlutverks samskiptaráðgjafans, eins og nefndin kemur inn á og beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis en við höfum einmitt mennta- og menningarmálaráðherra í salnum, verði haft samráð við hann í þeim efnum og að ráðuneytið kanni hvort aðgerðin eigi jafnframt að ná til þeirra sem falla undir gildissvið laganna, svo sem aðila sem gera samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um rekstrarframlög vegna sambærilegrar starfsemi. Þetta er afar mikilvægt og ég tel að nefndin hafi náð að halda vel utan um samspil þessarar viðamiklu áætlunar og málsins um samskiptaráðgjafann.

Svo vil ég rétt í lokin þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að halda afar vel utan um þetta stóra og viðamikla mál og þessa miklu áætlun og jafnframt ritara nefndarinnar og nefndinni sjálfri.