150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við samþykktum í gær frestun á framlagningu endurskoðaðrar ríkisfjármálastefnu, fjármálaáætlunar og fjárlagafrumvarps. Samhliða samþykktum við að færa samkomudag Alþingis til 1. október. Það er ærið verkefni fyrir höndum á tiltölulega skömmum tíma og mikilvægt að ný og endurskoðuð stefna liggi fyrir svo fljótt sem auðið er, eins og lög um opinber fjármál mæla fyrir.

Þrátt fyrir góðan árangur gagnvart veirunni og að efnahagslegri þoku sé eitthvað að létta er enn töluverð efnahagsleg óvissa. Við erum enn að vinna með Covid-tengdar efnahagsaðgerðir og er ljóst að hallinn verður verulegur á þessu ári. En þannig verðum við einfaldlega að láta ríkisfjármálin vinna með efnahagslífinu, atvinnulífinu og heimilunum. Óhjákvæmilega fylgir því að fjármagna verður það sem upp á vantar með lántökum.

Aðrar ráðstafanir: Þrátt fyrir að forsendur fjárlaga og fjármálastefnu séu brostnar væru slíkar ráðstafanir óráð, hvort heldur á tekju- eða gjaldahlið. Það eru sannarlega miklar áskoranir sem fylgja því verkefni sem fram undan er. Ein sú stærsta er að vinna hratt niður það atvinnuleysi sem fylgir og að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Stöðugt endurmat og forgangsröðun útgjalda er viðvarandi verkefni en mun reyna verulega á sem aldrei fyrr. Stjórnvöld og fleiri aðilar hafa verið að vinna með sviðsmyndir og í samantekt hagfræðings Alþingis gefur meðaltal þeirra sviðsmynda niðurstöðu fyrir 8,7% samdrátt vergrar landsframleiðslu fyrir þetta ár en 5,1% hagvöxt á því næsta. Verkefnið hefur verið að beita ríkisfjármálunum og bráðaaðgerðum í gegnum þetta og fram undan er verkefnið að vaxa út úr þessum skelli.