150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[13:00]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Á síðustu vikum og mánuðum hafa borist margar jákvæðar fréttir sem benda til þess að við séum a.m.k. að ná einhverjum árangri þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum, hvort sem er á láði, legi eða lofti. Við sjáum öra fjölgun rafbíla í flota landsmanna. Við heyrum fréttir af flugvélum sem fljúga á rafmagni og sömuleiðis spennandi þróun í orkuskiptum á sjó. Á aðalfundi Landverndar nýverið var samþykkt áskorun til stjórnvalda um að banna innflutning bensín- og dísilbíla fyrir árið 2023 og innflutning vinnuvéla og -tækja sem ganga ekki fyrir hreinum orkugjöfum fyrir árið 2025. Sannarlega metnaðarfullt markmið, en staðreyndin er að til þess að ná alvöruárangri þá verðum við líka að setja okkur alvörumarkmið. Staðreyndin er þó sem betur fer að Íslendingar virðast ætla að taka þátt í orkuskiptum. Þannig eru 45% af nýskráðum bílum á Íslandi það sem af er þessu ári raf- og tengiltvinnbílar.

En því miður er þó enn nokkuð af hindrunum í vegi frekari fjölgunar rafbíla, a.m.k. í huga fólks. Helsti flöskuhálsinn nú er að það eru enn of fáar hleðslustöðvar á hverjum stað, jafnvel bara ein eða þrjár eins og er við Staðarskála. Það þýðir að á vinsælum ferðaleiðum getur myndast biðröð en þess á milli er notkunin auðvitað minni og því á mörkunum hvort fjárfesting í fleiri hleðslustöðvum borgi sig. Við þurfum að bregðast við því á einhvern hátt. Ein leiðin væri sú sem Þjóðverjar hafa valið, að gera hleðslustöðvar að skyldu á hverri bensínstöð. En önnur leið sem mig langar að nefna hér og er að vinna að væri að gera breytingar á hlutverki Rariks og fela því að flýta fyrir uppbyggingarstarfi hleðslustöðva á lykilsvæðum um landið. Þannig tel ég að við gætum tekið stærri og hraðari skref í átt að orkuskiptum í samgöngum.