150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[13:02]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Það eru tvö mál, sem má kannski kalla réttindamál, sem mig langar að taka upp hér í dag, sem við á Alþingi þurfum að horfa til og hæstv. ráðherrar sem fara með þá málaflokka. Fyrst vil ég taka undir með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni um að það er ólíðandi hvernig hægt er að láta aðgengismálin reka á reiðanum. Það þarf að vera alveg skýrt og hæstv. félagsmálaráðherra þarf að kanna það með okkur hvernig við getum komið aðgengismálum inn í reglubundið eftirlit með byggingum, bara eins og er með byggingareftirlit, brunaeftirlit og annað slíkt. Það eru engar byggingar eða teikningar samþykktar nema þær uppfylli brunavarnakröfur, kröfur um flóttaleiðir og annað slíkt og aðgengismál fyrir fatlaða eru af algjörlega sama meiði. Þetta er öryggismál, þetta er réttindamál og þarna þurfum við að finna einhverja lausn þannig að aðgengismál falli inn í það eftirlit sem er nú þegar til staðar og passar vel.

Hitt sem ég vildi nefna og við þurfum að kanna er hvort við getum gert einhverjar breytingar vegna kjaraviðræðna. Það er ólíðandi að hópar séu ítrekað með útrunna kjarasamninga. Af hverju í ósköpunum er það? Er það eitthvað í því ferli sem við höfum búið til hérna eða gert að venju eða sett lög um eða annað slíkt sem gerir að verkum að það er hægt að leyfa sér að fara langt fram yfir gildistíma um að ná kjarasamningum? Ég er sérstaklega með hugann við félaga mína í lögreglunni. Þeir hafa ekki verkfallsrétt en þetta virðist líka vera lenskan hjá öðrum stéttum sem hafa þó verkfallsrétt. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til að breyta þessu og koma í veg fyrir þetta því að það er mjög bagalegt fyrir alla aðila að málum skuli vera þannig háttað.