150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Menn ímynda sér sem sagt að heildarframkvæmdirnar verði 110–120 milljarðar. Þeir hafa hins vegar ekki komist að niðurstöðu um hvaða sviðsmynd, eins og hv. þingmaður lýsti því, hvaða leið á að fara nákvæmlega. Menn hafa ekki hugmynd um hvað heildarverkefnið getur kostað. Menn hafa ekki hugmynd um ábatann sem verður af þessu vegna þess að menn eru ekki búnir að velja sér sviðsmynd sem á að fara eftir.

Svo kemur þessi sérstakra skýring. Það er ekki hægt að reikna þetta út fyrr en búið er að stofna þetta félag. Ég spyr nú bara: Hverjum dettur í hug að fara í þann leiðangur að skuldbinda ríkissjóð og sveitarfélögin og stofna félag án þess að hafa í rauninni hugmynd um hver endanleg niðurstaða verður, hvorki er varðar heildarkostnaðinn, hvort þetta borgi sig yfirleitt né hvort arðsemismatið leiði í ljós að framkvæmdin sé svo og svo arðbær? Menn virðast heldur ekki hafa komið sér saman um hvernig eigi að reikna út rekstrarkostnaðinn af öllum þessum framkvæmdum.

Það er í rauninni ætlast til að Alþingi samþykki samgönguáætlun með einhvers konar loforðum um þessa borgarlínu og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Menn eiga að samþykkja svokallaða samvinnuleið, PPP eins og hún hefur verið kölluð hér. Þar inni eru verkefni, sem ég ætla ekki að segja að séu ljósár í burtu í framkvæmd en mjög langt í burtu, sem ekki virðist heldur búið að reikna út eða gera áætlanir um. Svo á að stofna hlutafélag sem á að vera forsenda þess að hægt sé að fara í verkefni sem ekki er búið að meta. Það er eins og byrjað sé á kolröngum enda á málinu öllu saman, herra forseti. Það er mjög mikill ábyrgðarhluti ef stjórnarflokkarnir, hugsanlega með stuðningi einhverra annarra, ætla að skuldbinda (Forseti hringir.) ríkissjóð með þessum hætti og senda hann út í algera óvissu hvað varðar þetta verkefni.