150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ítreka það sem ég sagði að þetta er mjög stórt verkefni. Mér er til efs að við hefðum klárað það meðfram þessu öllu saman á örfáum mánuðum, við hefðum eflaust getað komist að sömu niðurstöðu og ég var að reyna að koma hér fram með, að þetta væri sennilega eða örugglega nettójákvætt. Ég vil bara benda á að við höfum ekki heldur yfirlit yfir losun frá landi. Hér er verið að fara fram á 100 millj. kr. framlag í fimm ár til að ná utan um það verkefni, þannig að ég held að þetta sé svona.

Mig langar aðeins að koma inn á PPP-verkefnin. Þetta er flýting á völdum verkefnum. Við erum jú að flýta verkefnum með ýmsum aðferðum. Þarna erum við að reyna að flýta mjög brýnum verkefnum með þessari tilteknu aðferð. Það má vel vera að það séu óljós atriði vegna þess að í raun og veru skýrast sum þeirra ekki fyrr en farið er út í samninga milli ríkis og viðkomandi aðila. Mér finnst það frekar ódýrt að kalla þetta bókhaldsbrellur því að umsagnir úr ríkisfjármálageiranum voru almennt séð jákvæðar, þ.e. ef samráð er haft og áhættan af þessum verkefnum er metin hlutlægt. Þannig að ég spyr: Eigum við ekki að treysta þeim aðilum til að meta þessi verkefni sem hæf og líta á þetta að nokkru leyti sem tilraun til að aðlaga svona PPP-verkefni að íslenskum veruleika?