150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um samgönguáætlun til næstu fimm ára. Það er margt og mikið í samgönguáætluninni og ég held að full ástæða sé til að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir vinnu hennar í þeim efnum. Samgöngumál eru auðvitað risavelferðarmál eins og hér hefur sagt, þau eru öryggismál og byggðamál. Við erum lítil þjóð í stóru landi og samgöngur skipta okkur mjög miklu máli. Ég ætla reyndar að nota tíma minn í að ræða eingöngu samgöngur á höfuðborgarsvæðinu því að ég veit að af nægu er að taka á landinu öllu og margir hafa sinnt því mjög vel.

Ég hef sagt það í þessum ræðustól, og stend við það, að því miður hefur höfuðborgarsvæðið orðið út undan á síðustu árum þegar kemur að fé til nýframkvæmda í samgöngum. Ég á skriflegt svar frá samgönguráðherra frá árinu 2017 sem sýnir, ef ég tek saman nýframkvæmdafé, að eingöngu 16% af nýframkvæmdafé fóru til höfuðborgarsvæðisins, sem er auðvitað ótrúlegt þegar þetta er svæði þar sem um 70% landsmanna búa. Ég hygg að flestir landsmenn komi hingað alla vega einu sinni á ári ef ekki mun oftar og langflestir ferðamenn fara um þetta svæði. Með þessu er ég ekki að segja að 70% af samgöngufé eigi að fara til höfuðborgarsvæðisins, ég átta mig auðvitað á því að landið okkar er stórt og að sjálfsögðu viljum við öll hafa öruggar og greiðar og góðar samgöngur um landið allt. En það er nefnilega öðruvísi að skipuleggja samgöngur í byggð en um dreifðar byggðir. Það krefst öðruvísi nálgunar. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé unnið í góðu samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem fara að sjálfsögðu með skipulagsvald.

Ég þreytist ekki á að segja að ég held að það sé ástæða til þess að við höfum það í huga að við erum alltaf að tala inn í langa framtíð. Samkvæmt svæðisskipulaginu á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir því að íbúum fjölgi um 70.000 manns fram til ársins 2040. Til að setja þetta í samhengi þá getum við tekið allan Hafnarfjörð og Kópavog og hálfan Garðabæ líka. Það er ekki eins og við séum bara að horfa á ástandið eins og það er núna og reyna að laga það, við erum að horfa til framtíðar. Það er alveg ljóst að ef ekki verður farið í stórtækar aðgerðir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu skerðum við lífsgæði höfuðborgarbúa gríðarlega vegna þess að umferðin eykst með ári hverju.

Þess vegna er höfuðborgarsáttmálinn svo mikilvægur. Þar hafa sveitarfélögin á þessu svæði legið yfir skipulagsmálum — samgöngumál eru auðvitað risastórt skipulagsmál — og hvernig best og hagkvæmast er hægt að auka lífsgæði fólks og sjá til þess að það geti komist á milli staða án þess að sitja fast í bílum svo klukkutímum skiptir og auðvitað líka til að styðja við uppbyggingu borgarsamfélags. Þess vegna fannst mér mikilvægt að heyra það þegar hæstv. samgönguráðherra mælti fyrir þessari þingsályktunartillögu að hann viðurkenndi að það þyrfti öðruvísi nálgun. Hér kunnum við að vera að tala um að það þurfi að setja einhverja stofnvegi í stokk. Við erum að tala um öflugar almenningssamgöngur, hágæðaalmenningssamgöngur og nálgunin er aðeins önnur en víðast annars staðar. Ég er mjög ánægð að sjá að samgöngusáttmálinn hefur ratað inn í samgönguáætlunina og mjög mikilvægt að við höldum vel á spöðunum þegar kemur að því verkefni.

Töflur í samgönguáætlun geta oft verið svolítið flóknar en ég var að láta taka saman fyrir mig hvert hlutfallið af nýframkvæmdafé væri á næstu árum til höfuðborgarsvæðisins. Mér sýnist það vera rúmlega 40% á næstu fimm árum sem hlýtur að vera mun eðlilegra hlutfall en það sem áður hefur verið.

Ég hef heyrt þingmenn hér gagnrýna það og finnast erfitt að láta frá sér með einhverjum hætti vald inn í einhvern sáttmála og inn í félag sem á að halda utan um það. Hefðin er önnur og í lögum varðandi vegaframkvæmdir er tínt til hvað eigi að gera. Síðan ég kom á þing hef ég talað fyrir því að við þyrftum í raun sérstaka samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið vegna þess að ég held að þetta séu svo ólík viðfangsefni. Mér finnst við vera að nálgast það með samgöngusáttmálanum og því get ég hans sérstaklega. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Samgöngusáttmálinn fjallar ekki bara um borgarlínuna, svo því sé til haga haldið. Hann fjallar um að finna hagkvæma og skynsamlega leið til að byggja upp fjölbreyttar samgöngur sem ýta undir valfrelsi einstaklinganna hér á þessu svæði, valfrelsi um það hvernig þeir vilja komast á milli staða. Þannig er bæði verið að setja fjármuni í hefðbundnar stofnvegaframkvæmdir sem geta t.d. falist í mislægum gatnamótum eða öðru þess háttar, ljósastýring er líka mikilvægur þáttur í því, en ekki síður er verið að horfa á aðra virka samgöngumáta eins og hjólreiðar og svo borgarlínuna sem ég þreytist ekki á að segja að er gríðarlega mikilvægur hluti af þessari framtíðarsýn.

Í umræðu hér um borgarlínuna, bæði í umræðum um samgönguáætlun en ekki síður í öðru máli sem ég vona að við afgreiðum síðar í dag, sem fjallar um að stofna félag utan um rekstur á þessum samgöngusáttmála, er því stundum kastað fram að við höfum ekki náð neinum árangri. Það er eins og við getum ekki verið með almenningssamgöngur hér því við hljótum að vera svo allt, allt öðruvísi en öll önnur samfélög í kringum okkur, sem er auðvitað algjör þvæla. Við erum bara frekar lík mörgum öðrum samfélögum. Ég held að það sé svo gott að muna það að í allri þessari grunnvinnu við svæðisskipulagið og hugmyndafræðina varðandi borgarlínu er horft til mjög sambærilega svæða og höfuðborgarsvæðisins að stærð. Það er ekkert verið að miða við New York eða Kaupmannahöfn eða London. Við erum bara að horfa á sambærileg borgarsamfélög í Noregi, Danmörku og víðar. Því hefur alltaf verið kastað fram að það séu aðeins 4% sem nota strætó. Það skal viðurkennast að við höfum ekki náð upp nægjanlega hárri ferðatíðni með almenningssamgöngum. En það má þó ekki gleyma því að vandamálið sem við erum að fást við er umferðarmagnið á háannatíma. Í mesta umferðaröngþveitinu á háannatíma er hlutfallið í strætó miklu nær 30–40%. Þegar allt er stappað á Miklubrautinni milli kl. 8 og 9 eða seinni partinn á milli hálffjögur og hálffimm er hlutfallið mun hærra. Fólk getur bara ímyndað sér, ef við værum ekki með þó þessa þjónustu, hvernig ástandið væri þá á götunum.

Það hefur líka orðið töluverð umræða hér um almenningssamgöngur, borgarlínuna, kostnaðaráætlun á bak við þetta í rekstri og annað. Ég sagði í andsvari um daginn að það mætti líkja þessu við byggingu Landspítalans, hvernig kostnaðaráætlun fyrir rekstur hjartadeildar Landspítalans verði eftir að hún tekur við í nýju hátæknisjúkrahúsi. Við erum í raun bara að tala um að byggja upp umgjörðina í kringum þessa þjónustu og auðvitað fer kostnaðurinn eftir því hversu tíðar ferðir við ætlum að bjóða upp á. En fyrst og fremst fáum við aukna hagkvæmni við að reka almenningssamgöngur þegar hægt verður að keyra í sérrými. Þess vegna er svo mikilvægt að þetta sé allt inni í þessu ágæta félagi þar sem sveitarfélögin fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég hygg að lykillinn að því að við náum einhverjum árangri sé einmitt samstarf sveitarfélags og ríkis. Þess vegna fagna ég þessu mjög.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að við séum að tala um samgöngur til framtíðar. Samgöngumynstur er að breytast. Deilihagkerfið er að koma mjög sterkt inn í samgöngum. Það er samt ekki þannig að við séum að fara að fljúga hér um á bílum, líklega aldrei, alla vega ekki í náinni framtíð þannig að við þurfum enn þá rými til að komast á milli staða, hvernig svo sem við gerum það, hvort sem það er með strætisvögnum í sérrými eða strætisvögnum á hefðbundnum vegum, einkabílum, deilibílum, reiðhjólum, hlaupahjólum eða fótgangandi. Það er svo mikilvægt að í þessari vinnu allri sé horft til fjölbreytni í ferðamáta og valfrelsi einstaklingsins.

Mig langar líka að nefna Sundabraut vegna þess að ég held að hún sé mjög mikilvægt verkefni. Ég raða Sundabrautinni samt ekki fremst í mikilvægisröðina, hún leysir ekki þau vandamál sem uppi eru í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Ég held engu að síður að Sundabraut sé mikilvæg samgöngubót til lengri tíma litið. Ég held að hún sé kjörið verkefni í algera einkaframkvæmd sem við setjum ekkert ríkisfé í vegna þess að við eigum að nota það í uppbyggingu borgarlínu og önnur mikilvæg verkefni. Það væri virkilega spennandi að sjá hvort einhverjir aðilar þarna úti hefðu áhuga á því að hanna þetta, koma með lausnirnar, hvað þeir telja hagkvæmast, fjármagna og framkvæma Sundabraut gegn því að fá svo að taka gjald í einhvern X tíma fyrir þá sem velja að aka þá leið. Að lokum myndi mannvirkið renna til ríkisins. Ég hef sagt það að ég á tilbúna þingsályktunartillögu um þetta ágæta mál sem ég legg kannski fram ef ekki bólar á þessu verkefni. Ég vona samt sem áður að það verði afgreitt fljótlega sem samstarfsverkefni um vegaframkvæmdir, svokallað PPP-verkefni. En ég vil ítreka sýn mína á Sundabrautina, ég held að það ætti ekkert endilega að vera eitthvert samstarfsverkefni ríkis og einkaaðila heldur ætti hreinlega að bjóða þá framkvæmd út og leyfa þeim sem treysta sér í það og hafa áhuga á því að fara í það verkefni, vegna þess að það er risastór framkvæmd og hún mun kosta umtalsvert mikið fé. Þá tryggjum við einmitt að fjármunum sé frekar varið í verkefni eins og borgarlínuna og þau sem eru í höfuðborgarsáttmálanum í dag en í verkefni eins og Sundabrautina.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir vinnuna, hún er góð. Nú þurfum við að tryggja að fjármagnið skili sér í samræmi við samgönguáætlun og að þau verkefni sem eru í höfuðborgarsáttmálanum skili sér á allra næstu árum því að það er hagur okkar allra.