150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður minntist á samgönguáætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, sem mér fannst mjög áhugavert. Ég talaði um að það ætti einmitt ekki að vera heildarsamgönguáætlun eins og við fjöllum um hérna, nema að því leyti að hún sé samsett úr t.d. samgönguáætlun höfuðborgarsvæðisins, samgönguáætlun Suðurlands eða Suðurnesja, sem sagt samgönguáætlun landshluta, og að við færum í rauninni valdið, skipulagsvaldið, ákvörðunarvaldið til nærsamfélagsins til að það geti ákveðið sjálft þá forgangsröðun sem það vill. Og það sem við gerum er að sjá um fjármögnunina, þannig að það sé alveg skýrt að fjármögnunin kemur héðan og að við séum á sama tíma ekki með puttana í forgangsröðuninni hjá einstökum landshlutum. Við höfum nefnilega reynslu af því að verkefni hoppa til og frá á listanum, sem hefur valdið ýmiss konar togstreitu og hefur t.d. valdið kergju varðandi sameiningu sveitarfélaga o.s.frv. Fjarðarheiðargöng frestast um 25 ár, ef ekki meira, af því að hér hefur alltaf verið fiktað í forgangsröðinni í stað þess að landshlutarnir ákveði að setja kostnaðarsama framkvæmd framarlega og safni þá fyrir henni eða eitthvað því um líkt. Hver veit? Mig langaði til að pæla aðeins í þeirri hugmynd með hv. þingmanni.