150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er nú enn að ná mér eftir þær upplýsingar að við séum fjögur sem erum svo áhugasömum um ræðu hv. þingmanns að við þurfum að deila með okkur þeim tíma sem er til skiptanna. En mig langar þá að vera skorinorður. Í breytingartillögu hv. þingmanns kemur fram að í kafla 2.3, í tölulið 2.3.10, skuli falla brott orðin „og með innheimtu veggjalda“, sem hljóðar nú þannig varðandi fjármögnun framkvæmda, með leyfi forseta:

„Áfram verði skoðaðar fjölbreyttar leiðir til fjármögnunar stórra framkvæmda, m.a. í samstarfi við einkaaðila og með innheimtu veggjalda.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þetta þýði að hann sé í öllum tilvikum á móti innheimtu veggjalda. Hér er einungis verið að ræða um að skoða fjölbreyttar leiðir til fjármögnunar stórra framkvæmda, þar með talið innheimtu veggjalda. Þýðir þetta að hv. þingmaður sé á móti því í öllum tilvikum?