150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hjó eftir því að hann talaði svolítið mikið um PPP-verkefni sem er kannski tækifæri til að ræða líka undir sérstökum lið þegar það frumvarp kemur fram. En þingmaðurinn ræddi einnig mikilvægi forgangsröðunar verkefna. Ég hef heyrt hann ræða það áður og get að sjálfsögðu tekið undir að það er mjög mikilvægt að við kunnum að forgangsraða þeim. En mér hefur stundum þótt hv. þingmaður telja það kannski — við skulum segja að það sé aðeins einfaldara að tala um það en raunverulega að gera það og þá yfir landið allt. Það er örlítið flóknara að setjast yfir verkefnið en að setja það í ræðu. Ef ég skildi þingmanninn rétt fannst mér hann vera almennt ósammála þeirri nálgun að fara í vegaframkvæmdir og þar af leiðandi flýtingar mikilvægra mannvirkja í samstarfi við einkaaðila. Mig langaði bara að spyrja hv. þingmann: Skildi ég hann rétt hvað þetta varðar?