150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Af mörgu er að taka í þessari umræðu um tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun. Þar sem tíminn er takmarkaður er engan veginn hægt að komast yfir margt af því sem maður vildi nefna hér. Ég ætla að byrja á að fjalla aðeins um hafnir og sjóvarnir og tek heils hugar undir mat meiri hluta nefndarinnar um að þörf sé á bættum sjóvörnum um allt land. Við þekkjum það að ágangur sjávar er víðast hvar mikill og hefur aukist á undanförnum árum og að nauðsynlegt er að verja strandsvæði og byggðir, eins og segir í nefndarálitinu.

Ég vil líka koma inn á eitt sem að því máli lýtur og hefur svo sem ekki verið fjallað neitt um hér, ekki hef ég fundið það í nefndarálitinu eða áætluninni, en það er mikilvægi þess að verja einnig fornminjar. Ég sakna þess svolítið að ekki skuli vera minnst á það hér vegna þess að sjávarrof veldur mikilli landeyðingu víða og það hefur orðið til þess að minjar um búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða eru horfnar eða í hættu og í sumum tilvikum á þetta einnig við um mannvirki sem reist hafa verið fyrir nokkrum áratugum. Ekki verður búið við það að mikil verðmæti fari forgörðum í þessum efnum. Við þekkjum það að fjöldi minjastaða liggur undir skemmdum vegna ágangs sjávar og er í fyrirsjáanlegri hættu. Saga okkar og menning, þegar kemur að fiskveiðum, útgerð, verstöðvum og öðru slíku, er mjög merkileg og því eigum við að halda á lofti. Það er auk þess afar mikilvægt að við verjum þessar minjar. Það er einnig forgangsmál að skrásetja fornleifar á ströndum landsins og tryggja þannig að vitneskjan um sögu okkar og menningu varðveitist þó að minjarnar kunni í einhverjum tilfellum að fara forgörðum. Með þessu skráningarstarfi, sem er mikilvægt, fengist grundvöllur til að forgangsraða verkefnum þegar kemur að sjóvörnum, og það lýtur að þessum menningarverðmætum okkar.

Til gamans má nefna að á Gufuskálum eru merkar fornminjar, sjóminjar. Heimamenn brugðu á það ráð að raða sandpokum til varnar þeim fornminjum gegn brimrótinu. Þrátt fyrir það hefur mikið af minjum farið forgörðum í sjó fram. En þjóð eins og við Íslendingar, sem státar sig af ríkri sögu og menningu á þessu sviði, getur ekki verið þekkt fyrir að heimamenn þurfi að hlaupa til með einhverja sandpoka til að reyna að bjarga menningarverðmætum. Það þarf átak í þessum málaflokki og þykir mér nauðsynlegt að koma því að hér.

Í fárviðrinu í desember 2019 varð umtalsvert tjón á sjóvarnargörðum, m.a. á Sauðárkróki og víða á Reykjanesskaga og í Reykjanesbæ, þannig að það er ánægjulegt að í þessu sérstakra fjárfestingarátaki var tæpum 150 millj. kr. varið í að bæta tjón vegna þess. Við erum minnug þess að á Reykjanesi er hækkun sjávarborðs hröðust á landinu.

Í þessu sambandi vil ég koma aðeins að höfninni í Þorlákshöfn. Hún er gríðarlega mikilvæg hvað varðar atvinnuuppbyggingu fyrir Suðurland í heild sinni. Endurbótum á höfninni er ekki lokið og er brýnt að tryggja fjármagn til að ljúka þeim svo stærri skip geti athafnað sig. Í áætluninni er gert ráð fyrir u.þ.b. 782 millj. kr. árið 2021, sem felur í sér lengingu hafnargarðs, dýpkunar- og grjótvörn og svo stálþil. Árið 2022 er síðan gert ráð fyrir 656 millj. kr. í verkið og er afar mikilvægt að það gangi eftir. Það skiptir verulegu máli fyrir þetta svæði, en sveitarfélagið Ölfus hefur orðið fyrir miklum áföllum í atvinnumálum á undanförnum árum og tengjast þau öll sjávarútveginum með einum eða öðrum hætti þar sem umtalsverður fiskveiðikvóti hefur verið seldur burt og fiskvinnslufyrirtæki hafa flutt starfsemi sína annað. Við þekkjum afleiðingarnar þegar kvóti er seldur burt úr byggðarlögum. Þær eru sláandi; atvinnumissir, fólksfækkun, verðfall á eignum fólks og þjónustuaðila, svo að fátt eitt sé nefnt.

Sveitarfélagið Ölfus hefur staðið sig vel í því að bregðast við þessum áföllum og er það til fyrirmyndar. Gott dæmi í þeim efnum er tiltrú á rekstri hafnarinnar og sú ákvörðun að ráðast í viðamiklar endurbætur á höfninni til að geta aukið tekjur frá nýjum verkefnum. Það hefur svo sannarlega tekist. Er það mjög ánægjulegt og nú um nokkurt skeið hafa reglubundnar millilandasiglingar verið til og frá Þorlákshöfn. Umsvifin hafa stóraukist og er Þorlákshöfn nú komin á kortið sem inn- og útflutningshöfn með stysta flutningstímann í sjóflutningum til og frá landinu. Er ástæða til þess að hrósa bæjarfélaginu fyrir þetta verkefni, og vil ég nota tækifærið og gera það hér, fyrir þá framsýni sem það hefur sýnt í þessu. Ríkisvaldið þarf að koma inn í til að höfnin nái enn frekar að vaxa og dafna. Er ánægjulegt er að sjá að það er í áætluninni og vonandi gengur það eftir.

Varðandi dýpkunarframkvæmdir í Suðurkjördæmi vil ég nefna Landeyjahöfn. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum að reyna að sjá til þess að hún verði heilsárshöfn. Við þurfum að reyna að finna leiðir til þess að það sé hægt. Það hefur sýnt sig núna; veðráttan undanfarna mánuði hefur verið hagstæð, sem sýnir hversu mikilvægt er að geta nýtt þessa höfn alla daga ársins. Ég vil auk þess minnast á dýpkunarhafnir við ósa Hornafjarðar og svo Hornafjarðarhöfn. Allt eru þetta mikilvægar hafnir sem þurfa að vera öruggar fyrir sjófarendur. Í byggðarlögum eins og Höfn, sem byggja aðkomu sína að verulegu leyti á fiskvinnslu og sjósókn, er mikilvægt að þessir hlutir séu í góðu lagi.

Ég vil aðeins næst víkja að Reykjanesbrautinni. Eftir að Reykjanesbrautin var tvöfölduð, frá Fitjum að Lónakoti í Hvassahrauni, hefur ekkert banaslys orðið á þeim vegarkafla, en því miður er ekki hægt að segja það sama um þann kafla brautarinnar sem enn er einbreiður. Það hefur sýnt sig að tvöföldunin hefur bætt öryggi til muna en samt er ekki ráðist í að klára verkefnið. Það er dapurlegt að það skuli ekki hafa verið gert fyrr, svo ekki sé meira sagt. Ekki er hægt að tala um Reykjanesbrautina án þess að tala um þá miklu harmleiki sem fylgt hafa slysum á þeim vegarkafla. Slys sem átt hafa sér stað á undanförnum árum eru með öllu óásættanleg. Fyrir utan þann mikla mannlega harmleik sem fylgir umferðarslysum þá eru þau gríðarlega kostnaðarsöm fyrir samfélagið, eins og komið hefur fram í ræðum. Því fylgir mikill þjóðhagslegur ávinningur að draga úr slysum og auka umferðaröryggi og við verðum sem samfélag að standa myndarlega að uppbyggingu og viðhaldi vega. Þessi mikilvægi málaflokkur hefur verið vanræktur allt of lengi og þá verður jafnframt að forgangsraða í framkvæmdum út frá umferðaröryggi og umferðarmagni. Ég held að það sé nokkuð ljóst að í ljósi efnahagsástandsins og stöðu ríkissjóðs er forgangsröðun í þessum málaflokki mjög mikilvæg. Við þurfum einnig að tryggja öruggar og greiðar samgöngur til að treysta byggð í landinu.

Ég fagna því að samkvæmt áætluninni á tvöföldun Reykjanesbrautar að ljúka árið 2023. Meginframkvæmdatíminn verður eftir tvö ár, 2022. Við sem ökum Reykjanesbrautina daglega höfum séð að framkvæmdum við tvöföldun brautarinnar innan Hafnarfjarðar, þ.e. frá Krýsuvíkurafleggjaranum að Kaldárselsvegi, miðar vel og mun þeim ljúka nú í haust. Það verður mikil samgöngubót, sérstaklega þegar kemur að öryggismálum. Er ánægjulegt að sjá hvað þessar framkvæmdir hafa gengið vel. Þá horfa menn með tilhlökkun til þess þegar farið verður í að tvöfalda þann einbreiða kafla sem eftir er, þ.e. Hvassahraunskaflann frá Lónakoti að Krýsuvíkurgatnamótunum.

Ég vil í þessu efni hvetja stjórnvöld til að hugsa til Suðurnesja þegar kemur að nauðsynlegum framkvæmdum í þessum efnum. Þar er atvinnuleysi 20%, það mesta á landinu. Ég fagna því sérstaka fjárfestingarátaki sem snýr að auknum framkvæmdum í Sandgerði og grjótvörn í Keflavík og Njarðvík. Allt skiptir þetta máli. Þetta var það sem ég vildi nefna sérstaklega varðandi Reykjanesbrautina og svæðið hér suður með sjó.

Áður en ég kem að Suðurlandinu vildi ég fjalla aðeins um flugsamgöngur. Það er mikilvægt að tryggja góðar flugsamgöngur og vil ég sérstaklega nefna Hornafjörð og Vestmannaeyjar, að opinber stuðningur komi til þessara staða. Þegar kemur að flugi tryggja slíkar almenningssamgöngur aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu og sérþjónustu sem ekki fæst þá heima fyrir, eða menn þurfa um langan veg að fara. Ég vil leggja áherslu á það hér að við þurfum líka að huga að þeim litlu flugvöllum sem eru til staðar og geta nýst okkur afar vel. Ég vil í því sambandi nefna flugvöllinn á Vík í Mýrdal, á Fagurhólsmýri og á Kirkjubæjarklaustri. Flugvöllurinn á Fagurhólsmýri sannaði gildi sitt þegar umferðarslys varð í Öræfunum fyrir ekki svo löngu og við sjáum að þessir flugvellir gegna mikilvægu öryggishlutverki. Það vantar bundið slitlag á þessa flugvelli, eins og á Vík og Fagurhólsmýri. Ég held að kostnaðurinn sé um 200 millj. kr. á hvorn flugvöll. En þetta skiptir miklu máli fyrir þetta svæði og er líka jákvætt gagnvart ferðaþjónustunni. Ef hægt væri að nýta þessa flugvelli meira myndi það létta á umferðarþunganum á vegunum, og þá væri hægt að nota stærri vélar.

Ég vil líka nefna flugvöllinn á Höfn í Hornafirði. Einhver ágreiningur hefur verið milli Isavia og heimamanna varðandi breikkun flugvallarins. Þegar kemur að malbiki hefur verið lögð áhersla á að flugvöllurinn, sem er 30 m breiður í dag, fari í 45 m með því að malbika alveg að ljósunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt verkefni og ná þarf sátt um það. Menn verða að hlusta á heimamenn hvað þetta varðar og þá er hægt að nýta þennan flugvöll fyrir stærri vélar eins og einkavélar. Ég tel fulla ástæðu til að skoða það að við myndum opna þennan flugvöll fyrir millilandatraffík og þá fyrir einkaþotur. Það myndi þjóna svæðinu vel og sérstaklega ferðaþjónustunni.

Nú er mikil uppbygging fram undan við Jökulsárlón og auk þess austur í Lóni. Þar eru hugmyndir um mikla uppbyggingu, byggingu fimm stjörnu hótels o.fl. Það yrði mikil lyftistöng fyrir svæðið ef þessi flugvöllur yrði breikkaður og malbikaður og aðstaða tryggð í kringum hann. Ég vildi nefna þetta hér vegna þess að þetta er mikilvægt fyrir svæðið og uppbyggingu þar, sem skiptir máli þegar kemur að ferðaþjónustunni.

Ég vildi næst koma að þjóðvegakerfinu almennt. Íslenska þjóðvegakerfið fékk falleinkunn í stjörnugjöf EuroRAP, sem gerði greiningu á vegunum og kynnt var hér á landi árið 2018. Flestir vegarkaflar fá þar eina stjörnu af fimm mögulegum og við sjáum að það er engan veginn ásættanlegt. Fram kom á þessum fundi að 2,8% veganna næðu fjórum stjörnum, 22,4% næðu þremur stjörnum af fimm, 34% fá tvær stjörnur og 40,9% vegakerfisins fá lægstu einkunn eða eina stjörnu. Þetta eru viðurkenndar mælingar sem gerðar voru yfir nokkurra ára tímabil, sem segir okkur að ástandið er algerlega óásættanlegt hvað þetta varðar og við þurfum svo sannarlega að taka okkur á í þessum efnum. Auk þess gerðu Samtök iðnaðarins skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem þau kynntu. Þar var ástand vegakerfisins metið slæmt og fær aðeins einkunnina tvo á skalanum einn til fimm. Við þurfum að fjárfesta gríðarlega í vegakerfinu á komandi árum og forgangsraða vegna þess að takmarkaðir fjármunir eru til skiptanna.

Herra forseti. Ég sé að tíminn líður hratt. Ég vil aðeins í lokin koma inn á áhersluverkefni á Suðurlandi. Þar er í forgangi að tryggja öryggi vegfarenda. Vegir þar eru víða þröngir og vegaxlir eru lélegar og sums staðar ekki fyrir hendi. Þetta á sérstaklega við á þjóðvegi 1, frá Markarfljóti austur í Skaftafellssýslu, og sömuleiðis á mörgum stofnvegum í uppsveitum. Auk þess þarf að breikka og styrkja vegaxlir. Ekki má heldur gleyma hjólreiðafólki og gangandi vegfarendum þannig að það er verkefni sem brýnt er að ráðast í. Það hefur mikið með öryggi að gera og auk þess merkingar og vegrið. Það á t.d. sérstaklega við um veginn í Eldhrauni og á Síðu í Öræfum, undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum. Síðan eru það einbreiðar brýr, sem við þekkjum. Það virðist vera endalaust verkefni að vinna bug á því og tvöfalda þessar brýr. Á þjóðvegi 1 eru, held ég, um 20 einbreiðar brýr, sem er allt of hátt hlutfall. Auk þess er mikilvægt að setja útskot, afreinar og aðreinar á hættulega staði.

Ég vil vísa í góða umsögn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga við þingsályktunartillöguna. Margt kemur þar fram sem skiptir miklu máli. Svo eru það stofnvegirnir og tengivegirnir, eins og við þekkjum, sem ekki eru lagðir bundnu slitlagi. Í umsögn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga segir að malarvegir í byggð á starfssvæði samtakanna séu samtals 452 km, og þar af tengivegir 414 km. Við sjáum að það er náttúrlega löngu tímabært að ráðast í sérstakt átak í lagfæringu malarvega. Auk þess er athyglisvert að gerð var íbúakönnun meðal íbúa á Suðurlandi um umferðaröryggi, þar sem umferðaröryggi er sérstaklega tilgreint. Þar kemur í ljós að það hefur mikil áhrif á skilyrði til búsetu. Greiðar samgöngur hafa mikil áhrif á búsetuskilyrði, atvinnutækifæri og öryggi og lífsgæði fólks. Það er nauðsynlegt að gleyma þessu ekki í þessari umræðu.

Herra forseti. Ég vil aðeins í lokin nefna, af því að ágætisandsvar kom hér við ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, að spurt var um stöðu ríkissjóðs og hvort forsendur væru brostnar í samgönguáætlun vegna stöðu ríkissjóðs. Það er alveg ljóst að á haustmánuðum verður fjárlagagerðin erfið og þarf eflaust að fara í hagræðingaraðgerðir vegna mikils halla á ríkissjóði. Þess vegna er afar brýnt að standa vörð um samgönguáætlun og forgangsraða í þeim efnum. (Forseti hringir.) Það er hægt að vera með góð og gegn áform í áætlun en það þarf fjármagn til að standa straum af framkvæmdum og þá þarf að forgangsraða í þeim efnum.