Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[11:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og tek eindregið undir það með henni að við þurfum að hafa skýr skilaboð á þessum tímum þegar við erum í grimmri baráttu við verðbólguna. Satt best að segja kemur það hæstv. ráðherra ekki á óvart að ég gagnrýni ríkisstjórnina fyrir að vera ekki nægilega grimm. Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa dregið þetta fram. Okkur kann að greina á um það hvernig við útfærum skilaboðin en skilaboðin eru mjög mikilvæg inn í þetta mál. Pólitískt skiptir þetta máli en ekki svo miklu upp á það að geta lækkað verðbólguna.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að þetta er eitt af þeim málum sem eiga að vinna með verðbólgumarkmiðum Seðlabankans: Var það til að mynda skoðað af hálfu ríkisstjórnarinnar að lækka virðisaukaskatt tímabundið? Var það skoðað af hálfu ríkisstjórnarinnar að afnema eða lækka tolla tímabundið, m.a. á matvörum? Og var það skoðað af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara í enn frekari aðhaldsaðgerðir í tengslum við fjárlögin og fjármálaáætlun svo að skilaboðin væru kannski ekki bara endurnotaðar yfirlýsingar heldur mun drastískari yfirlýsingar þannig að tækifærið væri notað til að senda enn skýrari skilaboð?

Mig langar til að fá svör við því hvort tímabundin virðisaukaskattslækkun hafi verið skoðuð, lækkun eða afnám tolla og svo aukið aðhald í ríkisrekstri.