Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 118. fundur,  7. júní 2023.

undanþága vegna tollfrjáls innflutnings frá Úkraínu.

[12:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta snertir einmitt stjórn þingsins og eins og fólk veit erum við á lokametrunum. Ég rek augun í það að þrátt fyrir eindregna skoðun hæstv. forsætisráðherra, eindregna skoðun hæstv. utanríkisráðherra, og ég veit að fleiri ráðherrar þessara tveggja flokka bera sama hug til undanþágu fyrir vörur frá Úkraínu, þá er þetta mál hvergi á dagskrá þingsins. Það kemur mér mjög á óvart eftir eindregna stefnu, sýn og orð forystufólks flokkanna. Við vitum það alveg sem erum hér að það er einn flokkur fyrst og fremst og eitthvert brot innan úr Sjálfstæðisflokknum sem er að stoppa þetta mál. Framsóknarflokkurinn vill ekki að þetta mál njóti framgangs eða forgangs hér. Herkvaðning, að mínu mati hagsmunaaflanna, hefur náð hingað til að stoppa þetta mál sem er mjög táknrænt. Það er ekki margt sem við Íslendingar getum gert til þess að styðja Úkraínu. Við höfum gert það vel fram að þessu og við eigum að sjá sóma okkar í því að halda áfram í þann tíma sem stríðið í Úkraínu varir að framlengja þessa undanþágu. Það er ofvaxið mínum skilningi af hverju þetta mál er ekki komið og af hverju hugsanlega er verið að stoppa þetta af hálfu formanns efnahags- og viðskiptanefndar og Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Ég er ekki bara reið, ég er mjög leið yfir því að sjá ekki þetta mál á dagskrá flokkanna þegar það er alveg skýr vilji, að mínu mati meiri hluta þingsins, (Forseti hringir.) til að framlengja þessa undanþágu.