154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:23]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og málshefjanda fyrir að vekja athygli á málefnum almannaöryggis, náttúruvár og háskólanáms í sömu andrá og þakka sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir sína yfirferð. Við viljum auðvitað hefja þessi málefni upp yfir pólitíska dægurþrasið því þegar áföllin dynja á okkur þá eigum við að búa við mikla og djúpa þekkingu, sem ég tel að sé reyndar til staðar hér á landi, og skýra hlutverkaskiptingu aðila sem koma að því að bregðast við áföllum. Og til þess að þetta gangi upp þá verður að vera stöðugur undirbúningur í gangi hjá okkar helstu stofnunum og það krefst þess auðvitað fyrst og fremst að þessar stofnanir séu vel fjármagnaðir, þær laði að sér hæft starfsfólk sem hefur ákveðið að sérhæfa sig og velja sér nám á þessu sviði; í áfallastjórn, hamfarafræðum, raunvísindum og mannlegum samskiptum eftir því sem við á. Það er auðvitað ekkert hægt að ávarpa almannavarnir án þess að benda á hið augljósa, að það hefur mjög hart verið sótt í niðurskurði að okkar helstu stofnunum. Ég nefni í þessu sambandi Landhelgisgæsluna, flaggskip almannaöryggis á Íslandi. Það þarf hvert einasta ár að berjast fyrir tilvistarrétti mikilvægs búnaðar hvort sem það er þyrla, flugvél eða skip. Það er líka ljóst að eftir síðustu fjármálaáætlun á að fresta því að byggja nýtt hús viðbragðsaðila og verður framvarðasveit almannavarna að hafast við í óhæfu húsnæði. Við erum að tala hér um Neyðarlínuna, ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, yfirstjórn slökkviliðsins og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Forseti. Það væri vissulega sómi að því að geta boðið upp á alþjóðlegt háskólanám og séríslenska þekkingu á þessu sviði, en ef nýir atburðir á Reykjanesskaga hafa kennt okkur eitthvað (Forseti hringir.) þá er það það að við þurfum að meta af alvöru hvort rétt sé að hverfa frá því að reiða okkur um of á sjálfboðavinnu starfsfólks. (Forseti hringir.) Við getum ekki kennt mörgum aðilum íslenskar leiðir í þessu á meðan niðurskurður í almannaöryggi á Íslandi heldur áfram eins og raun ber vitni.