154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að taka þetta mál hér upp og fyrir þá áskorun, eða brýningu eftir atvikum, sem í því felst gagnvart hæstv. ráðherra. Ég held að það sé mjög vel til fundið að þetta verði skoðað og tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. ráðherra í byrjunarávarpi þar sem ráðherrann fór yfir hvað væri í gangi innan háskólasamfélagsins í dag í þessum efnum. En það er auðvitað þannig að þó að sérfræðingar séu víða í þessum efnum þá hljótum við hér á Íslandi að telja okkur býsna vel rútíneruð í þeim áföllum sem náttúran getur boðið okkur upp á hverju sinni. Við vitum það auðvitað og sjáum bara að okkur gengur best þar sem við erum að byggja sérfræðiþekkingu ofan á greinar þar sem grunnurinn er sérstaklega sterkur. Má sem dæmi í því nefna öll þau afleiddu fyrirtæki og afleiddu tækni sem hefur orðið til á grundvelli sterks sjávarútvegs. Þannig að ég held að það sé virkilega vel til fundið hjá hv. þingmanni að taka þetta upp hér og hvet hæstv. ráðherra til að skoða þessi mál á þeim nótum sem uppleggið hér í dag teiknar upp og með í huga, eins og ég sagði, það sem fyrir er í háskólunum þannig að sem best nýtist bæði hvað varðar þekkingu og fjármuni.