154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[13:59]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er margt að ræða. Markaðurinn sjálfur er í mínum huga ekki endilega neikvæður. Ég vil bara að nefna sem dæmi fiskmarkaðina sem bjuggu til raunhæft söluverð á fiski dregnum úr sjó og gerðu það að verkum að sjómenn fengu þó oft eðlilegra verð fyrir þann fisk sem þeir drógu úr sjónum.

Ég vil ekki sleppa hv. þingmanni frá þeirri umræðu sem hún fór í varðandi auðlindir í þjóðareign, það að setja slíkt auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, af því að það er eitt að setja það inn í stjórnarskrá. Annað er síðan hvernig við ætlum að vinna með það í framhaldinu. Erum við tilbúin til að setja tímabundna nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign? Við erum t.d. að sjá kvóta erfast milli kynslóða í dag af því að það er ekki tímabundin nýting náttúruauðlinda til staðar. Það hefur verið algjörlega rakið að þetta erfist bara milli kynslóða. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Er hún tilbúin til þess að berjast fyrir því með okkur í Viðreisn að um tímabundna nýtingu náttúruauðlindar verði að ræða inni í stjórnarskrá?