131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:51]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að hv. þingmenn og aðrir velkist ekki í vafa um það — hér er verið að hækka skatta. Hér er verið að leggja á skatta. Jafnvel þó að í fortíðinni hafi skattar einhvern tíma verið lækkaðir er með þessu verið að hækka skatta.

Ég nefndi það líka í ræðu minni, og hv. þingmaður valdi að sneiða mjög fram hjá því, að leita hefði mátt annarra leiða til að skapa það jafnræði sem hér er verið að tala um. Þetta er algerlega ókannað og engar rannsóknir hafa farið fram á því hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér, alveg eins og hér kom fram hjá varaformanni hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Við skulum bara gera þetta, svo sjáum við til hvað kemur út úr því. Þá munum við skoða reynsluna og reyna að læra af henni, hendum okkur út í og sjáum til hvort við sökkvum eða ekki.

Hvað varðar samkeppnina sérstaklega ætla ég að leyfa mér að segja að ég hef afskaplega litla trú á því að í þessum geira verði nokkur samkeppni. Það verður í besta falli fákeppni, og ekki aðeins það — til þess að einhver vottur af samkeppni gæti átt sér stað, einhver vottur, yrði að vera mjög öflugt eftirlit og mikið aðhald til að nokkurt vit gæti verið í því. Ég hef ekki nokkra trú á því vegna fámennis og landfræðilegrar legu að hér verði nokkur einasta samkeppni í orkugeiranum. Niðurstaðan er sú, eins og ég sagði áðan, að það eru ekki ein einustu rök fyrir því að fara þessa leið.

Kannski lýsti Verslunarráðið þessu best í þremur línum án þess að segja nokkurn skapaðan hlut.