132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

íþróttastefna.

753. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Út er komin skýrsla sem ber nafnið „Íþróttavæðum Ísland — aukin þátttaka — breyttur lífsstíll“. Hún kom út í janúar, fyrir hálfu ári síðan. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á Íslandi er fjölbreytt og öflugt íþróttastarf. Starfið er borið uppi af frjálsum félagasamtökum sem hafa sýnt í verki að þeim er treystandi til að halda uppi öflugu íþróttastarfi í landinu.“

Síðar segir:

„Tillögur þessarar nefndar miða að því að hvetja stjórnvöld, hagsmunasamtök og almenning til að vinna saman að því markmiði sem við kjósum að kalla; íþróttavæðingu Íslands, og miðar að því að auka þátttöku í íþróttum og gera hreyfingu að lífsstíl.“

Jafnframt segir í kafla um uppbyggingu og umfjöllunarefni skýrslunnar:

„Með íþróttastefnu Íslands er því lagður grundvöllur að því að allir Íslendingar geti stundað íþróttir eða aðra hreyfingu reglulega sér til heilsubótar.

Íþróttastefna Íslands miðar

að aukinni þátttöku landsmanna, ekki síst barna og unglinga, í íþróttum sem og reglulegri hreyfingu,

að því að skipa íþróttastarfi veglegan og verðugan sess í íslensku þjóðlífi,

að auknum árangri íslensks íþróttafólks á heimsvísu.“

Ég hef þá trú, frú forseti, að allt kalli þetta á aukið fé og það er ekki nóg að setja saman nefnd og leggja fram skýrslu. Þessi skýrsla hefur verið kynnt í fjölmiðlum og strax að sjálfsögðu vakið væntingar þannig að ég velti fyrir mér framhaldinu.

Ég kem því með eftirfarandi fyrirspurn til ráðherra íþróttamála:

1. Hvaða aðilar komu að stefnumótunarvinnunni „Íþróttavæðum Ísland“?

2. Hverjir eru helstu lykilþættir og markmið íþróttastefnunnar „Íþróttavæðum Ísland“?

3. Hvenær hyggst ráðherra hrinda þessari stefnu í framkvæmd?

4. Mun aukið fjármagn til íþróttamála/íþróttahreyfingarinnar fylgja framkvæmd þessarar stefnu?

5. Hyggst ráðherra tryggja minnihlutahópum, þ.e. samkynhneigðum og innflytjendum, greiðari aðgang að íþróttaiðkun?