132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

eignir Listdansskóla Íslands.

758. mál
[14:32]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hugsunin með þessum breytingum var margþætt, m.a. að stuðla að því að fjölga tækifærum á sviði listdansins en um leið að reyna að auka gæðakröfur til listdansins.

Við munum tryggja að þeir nemendur sem voru í gamla Listdansskóla Íslands geti haldið áfram. Það var eitt af þeim atriðum sem var lofað á sínum tíma að þeir gætu haldið áfram námi sínu á þeim forsendum sem þeir byrjuðu. Við munum tryggja það, m.a. í ljósi þess samnings sem hefur verið undirritaður milli ráðuneytisins og hv. þingmaður vísaði til. Við munum tryggja að þeir geti haldið sínu námi áfram.

En við höfum um leið, eins og ég gat um, opnað möguleika fyrir fleiri að koma að því að starfrækja listdansskóla en þá undir þeim formerkjum að menn uppfylli gæðakröfur sem núna eru í fyrsta sinn í rauninni sýnilegar með þeim námskrám sem lagðar hafa verið fram m.a. til umsagnar og yfirferðar.

Þannig að allur rammi um listdansinn er mun betri en hann var áður enda þurftum við að taka tillit til ýmissa sjónarmiða sem hafa m.a. komið fram og birst á síðustu árum í skólakerfinu. Ég tel okkur standa að listdansinum með fagmennskuna í fyrirrúmi.