135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[14:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er gott að menn geti farið í göngur og sparað heilar þrjár mínútur af ræðutíma sínum í leiðinni.

Við erum að ræða um alþjóðlega þróunarsamvinnu og breytingar sem við erum að gera á henni til nokkurrar framtíðar. Þetta mál var tilbúið í vor og vannst að mínu mati vel í nefndinni og við höfum ekki unnið í því í sumar enda ekki þörf á þar sem málið var nánast tilbúið til afgreiðslu í vor. Málið var eitt af þeim málum sem var látið bíða til þess að klára á yfirstandandi septemberþingi og það er því ekki hægt að segja að miklar deilur séu um það. Það skrifa allir undir nefndarálitið, eins og hér hefur komið fram, þó að sú er hér stendur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skrifi undir með fyrirvara.

Ég sagði í framsöguræðu minni við 1. umr. að ég teldi þetta frumvarp almennt vera mjög jákvætt. Það er verið að taka heildstætt á þróunarsamvinnunni og það er verið að fjalla sérstaklega um marghliða þróunarsamvinnu sem er að vissu leyti nýmæli í stefnumótun okkar og frumvarpið er að mestu leyti jákvætt. Síðan eftir vinnuna í utanríkisnefnd get ég fullyrt að málið hefur batnað enn frekar og ég tel að allir hafi teygt sig allmikið til sátta um þetta mál til að ná saman einu nefndaráliti. Ég tel að það sé mjög gott og að ástæða sé til að þakka sérstaklega hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem er formaður utanríkismálanefndar, fyrir að hafa leitt þá vinnu og leitt okkur saman um þokkalega samstöðu um þetta mál af því að við viljum gjarnan að unnið sé í pólitískri samstöðu að þróunarsamvinnumálum almennt.

Það er alveg ljóst að þróunarsamvinna er málaflokkur sem er mjög vaxandi og miklu meiri umræða fer fram um þróunarsamvinnu núna í samfélaginu en áður, ekki bara á Íslandi heldur erlendis líka. Fólk hefur miklu meiri áhuga á þessum málum. Fyrir utan það erum við Íslendingar að setja hærri upphæðir í málaflokkinn en nokkurn tíma hefur sést þótt við séum auðvitað langt frá því takmarki sem við settum okkur á sínum tíma og þjóðir heims, og langt frá því takmarki sem aðrar Norðurlandaþjóðir hafa langflestar náð. Bæði Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa náð 0,7% markinu af vergum þjóðartekjum í þróunarmál, þróunarsamvinnu. Við erum langt frá því markmiði og Finnland hefur sett sér það takmark að ná þessu markmiði, 0,7% markmiðinu fyrir árið 2015, en við höfum ekki sett okkur markmið um ártal hvenær við náum 0,7% markinu en við stefnum á 0,35% árið 2009.

Þróunarsamvinna er að vissu leyti öryggismál í dag. Það er mjög brýnt að aðstoða þjóðir til sjálfshjálpar þannig að þær geti risið upp og búið vel að þegnum sínum. Það er mikið öryggismál. Þetta höfum við rætt nokkuð mikið t.d. á norrænum vettvangi þar sem Norðurlöndin beittu sér sérstaklega fyrir að aðstoða Eystrasaltsríkin, svo ég taki það sem dæmi. Þar var litið á aðstoð og stuðning við Eystrasaltsríkin sem sérstakt öryggismál. Ef þau ríki mundu ekki rísa upp og þar yrði ekki bætt úr t.d. velferðarmálum þá mundi það grafa undan öryggi á Norðurlöndunum, þannig er þróunarsamvinna mjög nátengd öryggismálum.

Ég tel að hæstv. ráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem fer með þennan málaflokk byggi að verulegu leyti á arfleifð fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, og ég hef fundið það í störfum hennar að hæstv. utanríkisráðherra hefur líka lagt mikla áherslu á stöðu kvenna og hlutverk jafnréttisbaráttunnar í þróunarsamvinnu. Ég vil sérstaklega við þetta tækifæri taka undir þá stefnumótun af því að það er bara þannig, og allir sem hafa skoðað þessi mál faglega sjá það að þróunarsamvinnan sem beinist sérstaklega að konum, sú þróunarsamvinna skilar sér mjög vel og betur en þróunarsamvinna sem beinist að öðrum málaflokkum og að körlum, svo ég segi það hreint út, að þegar verið er að þjálfa konur og aðstoða konur þá er verið að þjálfa heila fjölskyldu og aðstoða mun stærri hóp en ef það er ekki gert. Ég styð því þá stefnumótun heils hugar.

Nefndin fjallaði um fjölmörg mál og hv. þm. Bjarni Benediktsson fór vel yfir það í framsögu sinni þannig að ég ætla ekki að endurtaka mikið af því, en í nefndinni var ítrekað að það væri mjög mikilvægt að hafa þverpólitískt samstarf og samstöðu um langtímastefnumörkun á sviði þróunarsamvinnu. Þess vegna náðist samstaða í nefndinni um að gera talsverðar breytingar á frumvarpinu og breytingarnar fólust, eins og hér hefur komið fram, í því að samstarfsráðinu er breytt. Það er fjölgað í því úr 15 í 17 og Alþingi kýs 7 fulltrúa til setu í ráðinu og þeir 7 fulltrúar eru í svokölluðu þróunarsamvinnuráði eða þróunarsamvinnunefnd. Þróunarsamvinnunefndin mun fá alveg sérstakt hlutverk sem er miklu víðtækara en samstarfsráðið sem átti að vera einungis í hugmyndafræðinni sem kom í frumvarpinu. Nefndin á að vera til umsagnar um stefnumótunina, umsögn hennar á að fylgja drögum að þingsályktunartillögu sem ráðherra leggur fyrir Alþingi. Þannig hefur hún miklu víðtækara hlutverk en samstarfsráðið sjálft. Það er líka gert ráð fyrir því að þróunarsamvinnunefndin verði kölluð fyrir utanríkisnefnd þegar verið er að ræða þingsályktunartillöguna en sú tillaga á að koma á tveggja ára fresti inn í þingið. Þróunarsamvinnunefnd á því að hafa víðtækt hlutverk.

Ég vil líka koma því á framfæri varðandi vinnuna í nefndinni að það kom skýrt fram að það er skilningur okkar að af þeim 7 fulltrúum sem hér verða kosnir í þróunarsamvinnunefnd er gengið út frá því að allir þingflokkar eigi a.m.k. einn fulltrúa í nefndinni, óháð því hvernig kosningar fara og hvernig pólitískt landslag skipast að öðru leyti. Það var rætt um að til að tryggja þverpólitíska sátt þá væri eðlilegt að allir þingflokkar ættu a.m.k. einn fulltrúa. Ég vil taka undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og votta að það er líka minn skilningur. Ég heyrði ekki að formaður nefndarinnar tæki sérstaklega á þessu í framsögu sinni en ég vil að það sé skjalfest hér að þetta er a.m.k. skilningur minn og ég heyri að það er líka skilningur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Í ræðu minni við 1. umr. gagnrýndi ég líka mjög víðtækt vald til setningar reglugerða. Það var komið til móts við þá gagnrýni sem reyndar fleiri þingmenn ræddu um í framsögu á þeim tíma og umræddar heimildir hafa verið minnkaðar allverulega og skýrðar í frumvarpinu þannig að það lítur mun betur út núna og er sett fram með miklu eðlilegri hætti en var.

Hér hefur verið rætt, það gerði hv. formaður Bjarni Benediktsson í framsögu sinni áðan með nefndarálitinu, talsvert mikið um starfsmennina og kjör þeirra og hvernig þeir eru ráðnir. Í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins er heimild til tímabundinnar tilfærslu starfsmanna milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytisins án þess að viðkomandi starf sé auglýst. Það voru gerðar athugasemdir við þetta. Ef ég man rétt var það BHM sem gerði það og líklega fleiri og ég hef talsverðar efasemdir um þetta, ég verð að viðurkenna það. Þetta var rætt í nefndinni og úr varð að nefndin, segir í nefndarálitinu, telji heppilegast að almenn lög gildi um starfsréttindi opinberra starfsmanna. Það er tekið undir það álit að það sé heppilegasta leiðin og sú eðlilegasta. Svo kemur röksemdafærslan fyrir því af hverju sú leið er ekki farin. Hins vegar verðum við í þessu sambandi jafnframt að horfa til séreðlis Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisþjónustu á sviði starfsmannamála og hinnar miklu skörunar þar á milli, þar sem sveigjanleiki í starfsmannamálum og flutningsskylda starfsmanna skiptir miklu máli. Ákveðin rök eru því fyrir þessari sérreglu frumvarpsins sem nefndin fellst á. Ég hef sem sagt talsverðar efasemdir um þetta og fyrirvari minn lýtur m.a. að þessu. Ég hef skilning á þessum rökum en mér þykir mjög óheppilegt ef við erum að pikka út hópa, og það er vaxandi tilhneiging í þá átt, hópa þar sem ekki þarf að auglýsa stöður þeirra. Mér finnst það óheppileg þróun.

Það var líka talsverð umræða, virðulegi forseti, um stöðu einkaaðila og hvernig hægt væri að auka aðkomu þeirra að þróunarsamvinnu. Við fengum til okkar gesti sem gagnrýndu það á vissan hátt að þeim fannst að það hefði ekki verið nógu opið fyrir það hingað til að einkaaðilar gætu komið að þróunarsamvinnu. Auðvitað er þetta mjög viðkvæmt atriði af því að ekki er ætlast til að einkaaðilar græði á þróunarsamvinnu, alls ekki, en einkaaðilar geta gegnt þarna miklu hlutverki og mikilvægu. Það er skilningur nefndarinnar að í ákvæði 8. gr. frumvarpsins sé alls ekki á nokkurn hátt verið að girða fyrir að Þróunarsamvinnustofnun geti gert samninga við einkaaðila og félagasamtök um aðkomu að þróunarverkefnum. Nefndin áréttar að um slíkt gildi almennar reglur og að ekki nauðsynlegt að sérstök lagaákvæði verði sett til grundvallar slíkum samningum þannig að það er skilningur okkar að það sé algerlega opið fyrir það að einkaaðilar komi í vaxandi mæli að þróunarsamvinnu og fyrir utan öll grasrótarsamtökin sem nú þegar eru að vinna á þessum vettvangi.

Í framsögu minni fjallaði ég nokkuð mikið um það fjármagn sem við erum að setja í þróunarsamvinnu og kallaði eftir svörum utanríkisráðherra um hvort við gætum verið einbeittari í að setja markmið um að hækka framlögin. Af því að hæstv. utanríkisráðherra situr hér og hlýðir á þessa umræðu, sem er virðingarvert, ætla ég leggja fram spurningar sem ég ætlast ekki endilega til að verði svarað en ef hæstv. ráðherra vill þá væri það ágætt. Ég mun reyndar ekki geta hlustað á svörin þar sem ég þarf að fara til annarra starfa bráðlega en mun fletta þeim upp og kíkja á svörin ef þau berast. Hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði við umræðuna í febrúar að það yrði lögð fram áætlun um þróunarsamvinnu á þinginu í haust. Tilvitnunin er orðrétt þannig, virðulegi forseti:

„Ég mun leggja þessa áætlun fram á þinginu í haust og þá mun þetta allt saman koma fram.“

Ég vil spyrja: Er þessi ætlan enn þá fyrir hendi? Mun ráðherra leggja fram þessa áætlun núna í haust eða verður það notað sem rök fyrir frestun hennar að við kláruðum ekki málið í vor þannig að hún teygist þá kannski fram í janúar eða eitthvað slíkt?

Í öðru lagi, virðulegi forseti, sagði hæstv. ráðherra í sömu umræðu eftirfarandi orð: „Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að við þurfum að setja okkur stefnumið í þessu sambandi. Í utanríkisráðuneytinu er verið að skoða með hvaða hætti við getum komið okkur upp í þetta hlutfall og þá á svipuðum tíma og aðrar þjóðir hér í kringum okkur.“ Hér er hæstv. ráðherra að tala um fjármagnið sem við erum að stefna að að setja í þróunarsamvinnu sem er 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu og notar orðalagið „á svipuðum tíma“ sem var það orðalag sem ég notaði líka í ræðu minni, vegna þess að Finnar, sem eru eina norræna þjóðin fyrir utan Ísland sem hefur ekki komið sér upp í 0,7%, hafa sett sér það stefnumið að klára sitt ætlunarverk, koma sér upp í 0,7% árið 2015. Ef þessi áætlun kemur fram í haust þá skil ég það svo að það sé afar líklegt að við munum sjá í henni að Ísland setji sér það markmið að vera komið upp í 0,7% árið 2015 af því að hæstv. utanríkisráðherra notar orðin „á svipuðum tíma“, þá er bara Ísland eftir og til að vera á svipuðum tíma hlýtur annaðhvort að vera átt við ártalið 2015 eða mjög nálægt því.

Virðulegur forseti. Ég er ánægð með þetta frumvarp í heildina, sérstaklega eftir breytingarnar sem utanríkismálanefndin gerði á frumvarpinu og ég tel að okkur sé lítið að vanbúnaði að klára umfjöllunina á þessu stutta haustþingi og tel ekki ástæðu til að tefja þingið frekar með útskýringum á nefndarálitinu en vinnan í nefndinni gekk mjög vel.