138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:56]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir öllu máli þegar vélað er um lagasetningu, réttindi og skyldur að menn séu ekki bara með augað á eigin rassi. Það skiptir öllu máli að horfa yfir sviðið allt. Það hýtur að vera sjónarmið til að mynda foreldra sem búa í sveitum á Langanesi og vilja að börn þeirra geti starfað og sótt skóla eða vinnu en verið samt á heimilinu að meta þetta á annan hátt. Þau hljóta að meta það þannig að eins árs svipting á leyfi til að taka bílpróf sé skerðing og meira að segja skerðing á mjög viðkvæmum tíma þegar þetta unga fólk er að velja sér farveg og byggja upp ákveðna hluti þannig að þetta er ekki svona einfalt. Við getum ekki bara miðað við borgarsamfélagið sem er hringinn í kringum torgið, við verðum að hugsa um landsbyggðina alla og kannski enn þá frekar hana því að borgarsamfélagið hefur svo mörg forréttindi, betri aðgang að menningu, skólum, heilbrigðisstofnunum o.s.frv., miklu meiri aðgang en fólkið sem býr úti á landsbyggðinni. Af hverju ættum við að þrengja kosti þess fyrir einhverja sjálfskapaða eiginhagsmuni? Það gengur bara ekki. Þetta er bara hlutur sem verður að horfa á í heild fyrir landið allt og sérstaklega með tilliti til þeirra sem þetta mundi bitna verst á.

17 ára unglingur getur farið á bíó hérna þó að hann sé ekki á bíl. 17 ára unglingur á Langanesi (Forseti hringir.) fer ekki í bíó, (Forseti hringir.) það er einfaldlega ekkert bíó þar. En hann getur kannski þurft að gera eitthvað annað (Forseti hringir.) sem er skynsamlegt.