138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar um frumvarp iðnaðarráðherra um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá Fjárfestingarstofu, Landsvirkjun, nefnd um erlenda fjárfestingu, Samkeppniseftirlitinu, Skiptum hf., iðnaðarráðuneyti og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Umsagnir bárust frá 20 aðilum. Flestir þeirra mæltu með því að frumvarpið yrði samþykkt en einnig kom fram gagnrýni á tiltekin atriði frumvarpsins, þar á meðal um meint óæskileg áhrif þess á samkeppnisstöðu hér innan lands, óljósa orkuöflun fyrir síðari áfanga verkefnisins auk þess sem einn umsagnaraðili gagnrýndi ýmsar forsendur sem byggt er á í greinargerð með frumvarpinu um atvinnusköpun, fjölda hátæknistarfa o.fl.

Á öld upplýsingatækninnar þegar hvers kyns gögn í stjórnsýslu og atvinnulífi eru geymd rafrænt er þjónusta gagnavera sífellt mikilvægari. Hlutverk þeirra er að hýsa tölvubúnað og fylgihluti á borð við fjarskipta- og geymslubúnað með öruggum hætti. Þessi iðnaður veltir nú hundruðum milljarða kr. á hverju ári og stækkar um 15–25% á hverju ári. Áframhaldandi vöxtur af þessari stærðargráðu er þó m.a. háður því að greinin finni viðunandi lausnir á stóraukinni orkuþörf og samsvarandi hækkun orkukostnaðar sem því fylgir. Nýir kolefnisskattar í Evrópu auka enn frekar áhyggjur manna í þessari grein. Þetta er meðal ástæðna þess að Ísland þykir vera mjög samkeppnishæfur valkostur sem land til að hýsa starfsemi gagnavera. Hér er orka í boði á samkeppnishæfu verði, hægt er að tryggja hana með langtímasamningum og nær öll raforka á Íslandi er græn, umhverfisvæn, og mun því ekki bera kolefnisskatta.

Þessu til viðbótar getur Ísland boðið upp á ókeypis kælingu í krafti lágs lofthita sem gerir kleift að byggja upp afar orkusparandi gagnaver hér á landi. Fleiri þætti mætti nefna sem styrkja stöðu okkar. Hér er góður aðgangur að hámenntuðu vinnuafli í upplýsingatækni- og rafmagnsverkfræðigreinum. Grunnkerfi landsins á sviði fjarskipta og orku eru traust og tveir nýlegir sæstrengir, Danice og Greenland Connect tryggja öflugan gagnaflutning með fjölbreyttum varaleiðum. Það er á þessum grundvelli sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey telur Ísland vera eitt fjögurra landa í heiminum sem henta best fyrir starfsemi gagnavera í framtíðinni og reyndar fær Ísland hæstu einkunn í samanburðarathugun þess fyrirtækis. Jafnframt sýnir úttekt PricewaterhouseCoopers í Belgíu sterka samkeppnisstöðu Íslands þegar vegin eru saman áhrif kostnaðar og gæða á sviði gagnaveraþjónustu.

Gagnaver Verne Holdings ehf. stefnir í að verða fyrsta alþjóðlega gagnaverið sem rís hér á landi en samkvæmt upplýsingum Fjárfestingarstofu er staðfestur áhugi margra annarra stórra og smærri aðila að hefja rekstur gagnavera á Íslandi í kjölfarið. Þeir aðilar munu fylgjast grannt með því hvernig til tekst við að koma rekstri þessa gagnavers á legg og hvaða úrræði finnast varðandi tæknilegar lausnir á þörfum um flutningshraða og gagnaöryggi. Stundum er talað um gagnaver Verne Holdings sem ákveðinn brimbrjót sem muni ryðja veginn fyrir sambærileg fyrirtæki sem koma í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er lagt til að iðnaðarráðherra fái heimild til að gera fjárfestingarsamning við Verne Holdings ehf, Verne Real Estate ehf. og eigendur þeirra um að þau reisi og reki gagnaver í Reykjanesbæ. Helstu atriði frumvarpsins eru hin sömu og koma fram í drögum iðnaðarráðherra og fyrrnefndra félaga að fjárfestingarsamningi. Þar eru verkefnin skilgreind, kveðið á um tímalengd samnings, mælt fyrir um undanþágur frá tilgreindum ákvæðum laga, skattlagningu félaganna, um lögsögu íslenskra dómstóla o.fl.

Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var ítarlega fjallað um lengd samningsins og gildistökuákvæði. Í síðari málslið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að í samningi milli ríkisins, eigendanna og félaganna skuli ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda en í ákvæðinu er kveðið á um að þau skuli gilda eigi skemur en í 20 ár frá undirritun. Fram kom við meðferð málsins í nefndinni að iðnaðarráðuneyti hefði borist ábending frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um að allar líkur væru á því að stofnunin mundi ekki heimila fjárfestingarsamning til þess tíma, þ.e. til 20 ára. Efnisreglur um byggðaaðstoð eru í leiðbeinandi reglum sem framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út og ESA tekið upp. Í gildandi reglum frá því í apríl 2006 er ekki tilgreint til hve langs tíma fjárfestingarsamningar geti verið. Hins vegar hefur framkvæmdastjórnin nú lýst því yfir að hún sé mótfallin því að gerðir séu fjárfestingarsamningar með skattalegum ívilnunum til svo langs tíma og sýna nýleg fordæmi að hún heimilar samninga á bilinu 10 til 20 ár. Í ljósi þessa taldi meiri hluti iðnaðarnefndar eðlilegt að leggja til breytingu á síðari málslið 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins í þá veru að í stað þess að kveðið sé á um að ákvæði samningsins skuli eigi gilda skemur en í 20 ár frá undirritun hans verði kveðið á um að samningurinn skuli gilda í 10 ár. Þar vegur þungt í ákvörðun nefndarinnar sömuleiðis að nú hefur verið lagt fram nýtt frumvarp iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna fjárfestinga í íslensku atvinnulífi og þar er miðað við að ákvæði samningsins um ívilnanir gildi í 10 ár frá því að skattskyldar tekjur myndast. Meiri hluti iðnaðarnefndar telur mikilvægt og raunar höfuðatriði að jafnræðis sé gætt svo sem kostur er varðandi ívilnanir til félaga sem hyggja á rekstur gagnavera og leggur því til að sömu forsendur um gildistíma verði lagðar til grundvallar í þessum fjárfestingarsamningi og í þeirri rammalöggjöf um ívilnanir sem er núna til meðferðar í þinginu og getur haft áhrif á rekstur gagnavera sem kunna að hefja starfsemi hér í landinu á næstu árum.

Nefndin fjallaði um áhrif ákvæða frumvarpsins á samkeppni. Nefndinni bárust athugasemdir þess efnis að yrði frumvarpið að lögum gæti það leitt til röskunar á samkeppni á tilteknum mörkuðum. Tekið er fram í athugasemdum við frumvarpið að í þeim frávikum frá lögum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og drögum að fjárfestingarsamningi felist ákveðin ríkisaðstoð til þeirra sem reisa og reka umrætt gagnaver. Í 2. kafla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eru reglur um ríkisaðstoð. Íslenskum stjórnvöldum ber að tilkynna fyrirhugaða veitingu slíkrar aðstoðar til Eftirlitsstofnunar EFTA og fá hana samþykkta áður en hún er veitt. Frumvarpið og árituð drög að samningnum ásamt öðrum samningum sem tengjast verkefninu hafa verið tilkynnt til ESA á þeim grundvelli að um réttlætanlega byggðaaðstoð sé að ræða. ESA hefur áður samþykkt svokallað byggðakort fyrir Ísland og hafa íslensk stjórnvöld heimild til að veita byggðaaðstoð í landsbyggðarkjördæmunum þremur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samkvæmt byggðakortinu getur byggðaaðstoð numið allt að 15% af heildarfjárfestingarkostnaði. Hlutfallið er þó lægra sé um mjög umfangsmikil verkefni að ræða og í því tilviki sem hér um ræðir gæti það hæst orðið 6,34%. Sú ríkisaðstoð sem hér um ræðir hefur verið áætluð 5,4 milljónir bandaríkjadala miðað við 20 ára samning en heildarfjárfestingarkostnaður er áætlaður 726 milljónir dala miðað við gagnaverið fullbúið árið 2016. Ríkisaðstoðin er því 0,74% af heildarfjárfestingarkostnaði ef við miðum við samning til 20 ára. Eins og greint var frá hér að framan hefur meiri hluti iðnaðarnefndar lagt fram breytingartillögu þess efnis að gildistíminn verði styttur um helming og fer áætluð heildarfjárhæð ríkisaðstoðarinnar þá niður í 3,4 milljónir bandaríkjadala og ríkisaðstoðarhlutfallið í 0,47%. Til samanburðar má geta þess að í fyrri fjárfestingarsamningum sem íslenska ríkið hefur gert, svo sem vegna álvera á Grundartanga, í Reyðarfirði og í Helguvík, hefur hlutfallið verið 2–3% af fjárfestingarkostnaði eða fimm til sex sinnum hærra en þær ívilnanir sem hér um ræðir. Þá er rétt að geta þess að þær ívilnanir sem kveðið er á um í frumvarpinu geta aðeins nýst til að reisa og reka viðkomandi gagnaver og er óheimilt að nýta þær til annarrar starfsemi viðkomandi félaga. Rétt er að árétta að engir fjármunir renna úr ríkissjóði til gagnaversins með þessum samningi og frávik frá gildandi skattalögum eru fá og minni háttar. Samningurinn er hins vegar afar mikilvægur fyrir fyrirtækið því að hann eyðir óvissu um framtíðarskattlagningu þess sem gæti raskað að öðrum kosti rekstraráætlunum og möguleikum fyrirtækisins á að laða til sín viðskiptavini og fjámögnunaraðila í framtíðinni.

Umsagnaraðili lagði til að bætt yrði við frumvarpið ákvæði þess efnis að óheimilt væri að nota þá ívilnun sem felst í frumvarpinu til að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Meiri hlutinn telur slíka breytingu ganga gegn meginmarkmiði frumvarpsins sem er jú að styrkja uppbyggingu þessa tiltekna gagnavers. Starfsemi gagnavera er samkeppnisstarfsemi og það fæli því í sér ákveðna rökleysu að taka fram í frumvarpinu að óheimilt væri að nota þá ívilnun sem felst í því til að niðurgreiða samkeppnisstarfsemi. Eins og áður er getið er veiting ríkisaðstoðarinnar háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA áður en hún er veitt og mun ESA við þá ákvörðun leggja mat á ríkisaðstoðina sem felst í frumvarpinu og fjárfestingarsamningnum, jafnt jákvæða sem neikvæða þætti hennar. Hinir neikvæðu þættir eru jú þeir að um sértæka aðstoð er að ræða sem gæti valdið röskun á samkeppni. Jákvæðu þættirnir eru hins vegar þeir að þetta verkefni mun hafa mikil áhrif á atvinnusvæðið, um 200 ný störf verða til og ríflega 300 afleidd störf á því svæði á landinu þar sem atvinnuleysi er hlutfallslega hæst og auk þess er um að ræða starfsemi sem eykur fjölbreytni í atvinnulífi landsins.

Í 11. tölulið 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að félögin verði undanþegin gjöldum samkvæmt 14. gr. laga um fjarskipti enda teljist þjónustan sem félögin veita ekki til þeirrar starfsemi sem falli undir ákvæði þeirra laga. Umsagnaraðili lagði til að tekinn yrði af allur vafi í áðurnefndri grein frumvarpsins um að félögunum yrði óheimilt að starfa á fjarskiptamarkaði. Nefndin telur slíka breytingartillögu óþarfa. Verði það raunin að félögin færu að veita fjarskiptaþjónustu mundi sú starfsemi þeirra ekki njóta þeirra ívilnana sem fram koma í frumvarpinu enda eru þær, eins og áður sagði, afmarkaðar við hið skilgreinda verkefni að reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ. Ætluðu félögin sér á síðari stigum að veita fjarskiptaþjónustu féllu þau undir lög um fjarskipti og þar með mundi undanþágan frá þeim gjöldum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu ekki eiga við. Nefndin ítrekar því að þær ívilnanir sem kveðið er á um hér í frumvarpinu geta aðeins nýst til að reisa og reka viðkomandi gagnaver en ekki til að nýta til annarrar starfsemi viðkomandi félaga.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að með þeim félögum sem ráðherra fær heimild til að gera fjárfestingarsamning við, verði frumvarpið að lögum, sé átt við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. en hið síðarnefnda er dótturfélag hins fyrrnefnda. Tveir stærstu hluthafar Verne Holdings ehf. eru Novator og Teha Investments S.A.R.L. en auk þessara tveggja félaga eiga stjórnendur nokkurn hlut í félaginu. Upplýst var við meðferð málsins í iðnaðarnefnd að góðgerðasjóðurinn Wellcome Trust yrði nýr hluthafi í Verne Holdings ehf. Mun hann samkvæmt upplýsingum nefndarinnar verða stærsti hluthafinn og koma inn með hlutafé þegar ritað hefur verið undir fjárfestingarsamninginn. Samkvæmt þessu munu hlutir áðurnefndra aðila, Novators, Teha Investments og eigenda og stjórnenda, minnka um nærfellt helming. Nefndin óskaði eftir nákvæmri sundurliðun á eignarhlutum hluthafa í félaginu en einungis Novator gaf samþykki sitt fyrir því að þeirra eignarhlutur yrði opinberaður. Aðrir hluthafar kváðust ekki geta aflétt trúnaði af þessum upplýsingum, báru við stefnu fyrirtækjanna annars vegar í Bandaríkjunum og Evrópu og vísuðu sérstaklega til þess að það gæti haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu þeirra. Í erindi frá stjórn Verne Holdings ehf. kom fram að eignarhlutur Novators verður 21,8% með tilkomu hins nýja hluthafa Wellcome Trust og lækkar úr 39,7%. Jafnframt kom fram í meðförum nefndarinnar að forsvarsmenn Novators teldu að hlutur þeirra mundi rýrna enn frekar í nánustu framtíð og stefndi jafnvel í 5–7% á komandi missirum. Líkur eru á því að Novator muni ekki taka þátt í hlutafjáraukningu sem stendur fyrir dyrum síðar á þessu ári og mun þá eignarhlutur félagsins minnka sem því nemur.

Virðulegi forseti. Við lifum á afar óvenjulegum tímum í okkar íslenska samfélagi. Fjármálakerfi landsins, sem í eðli sínu er eins konar æðakerfi atvinnulífsins á hverjum tíma, riðaði til falls á haustmánuðum 2008 með afleiðingum fyrir þjóðarbú og íslenskan almenning sem allir þekkja. Afleiðingarnar eru víðtækar, hagkerfið hefur orðið fyrir áfalli, íslensk þjóð býr við mun þrengri kjör, þúsundir Íslendinga glíma nú við atvinnuleysi með öllum þeim andlegu og félagslegu afleiðingum sem því fylgir. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis staðfestir að stjórnendur og eigendur viðskiptabankanna þriggja fóru offari í fjárfestingum, lánveitingum og skuldsetningu með þeim afleiðingum að grafið var undan þessari mikilvægu aflstöð atvinnulífs og heimila í landinu. Ábyrgð þeirra sem réðu för í bönkunum er mikil og leiða má af sterkum líkum að gjörðir margra þeirra verði tilefni til málssókna í dómskerfi okkar. Í þessu máli vegast á sjónarmið atvinnusköpunar annars vegar og siðferðilegrar ábyrgðar stjórnvalda á tímum uppgjörs og endurmats hins vegar.

Talsvert var rætt um það í nefndinni að einn þeirra aðila sem tengist verkefninu, nánar tiltekið aðaleigandi Novators, Björgólfur Thor Björgólfsson, var umsvifamikill þátttakandi í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi í aðdraganda hruns fjármálakerfisins sem einn af aðaleigendum Landsbanka Íslands og Straums fjárfestingarbanka. Það sjónarmið var ríkjandi í nefndinni að siðferðilega ámælisvert væri ef stjórnvöld gerðu samning sem fæli í sér fjárhagslegar ívilnanir í þágu eins þeirra aðila fjármálakerfisins sem valdið hefðu þjóð sinni svo þungum búsifjum. Meiri hlutinn ákvað að rétt væri að taka mið af niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins áður en frumvarpið yrði endanlega afgreitt úr iðnaðarnefnd. Það sjónarmið kom fram í nefndinni að stjórnvöld ættu fortakslaust að hafna því að ganga til samninga við Novator af þeim ástæðum sem að framan greinir og krefjast þess að sá hluthafi losaði sig við sinn hlut í fyrirtækinu. Það er sjálfsagt að það komi fram að sú leið var könnuð en reyndist ekki fær af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi hefði það kippt fótunum undan nýlegum samningi við þann hluthafa sem ég nefndi áðan, hinn nýja hluthafa Wellcome Trust, breskan góðgerðasjóð, sem felur í sér að aðrir hluthafar að fyrirtækinu hverfi ekki frá því næstu 24 mánuði hið minnsta. Í öðru lagi eru allar líkur á því að slík einhliða íhlutun af hálfu stjórnvalda í innri málefnum fyrirtækisins hefði varðað við 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel á hinn bóginn að það hefði verið óverjandi af hálfu löggjafans að láta þetta frumvarp fara í gegn óbreytt og taka þar með ekkert tillit til þeirra siðferðilegu álitamála sem tengjast hlut Björgólfs Thors í þessu verkefni. Sá aðili á sinn hlut í hruni fjármálakerfisins, hann gengst við þeirri ábyrgð eins og fram kemur í yfirlýsingu sem fylgir nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar og það er réttlætanlegt og eðlilegt við þessar óvenjulegu aðstæður að taka þá ábyrgð með í reikninginn þegar við leitum lausnar á þessu viðfangsefni. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir það sjónarmið að óheppilegt sé við núverandi aðstæður að stjórnvöld stuðli að því að einn af ábyrgðaraðilum bankahrunsins njóti persónulega fjárhagslegs ávinnings af þessum samningi.

Með hliðsjón af þessari afstöðu nefndarinnar hefur verið gert samkomulag milli stjórnvalda og aðaleiganda Novators, á grundvelli yfirlýsingar þess síðarnefnda, þess efnis að við endanlega útgáfu fjárfestingarsamningsins komi fram í sérákvæði að Novator framselji til ríkisins sinn hluta sem eins eiganda Verne af þeim fjárhagslega ávinningi sem rekja má beint til þeirrar ríkisaðstoðar sem kemur fram í samningnum. Verðmæti fjárfestingarsamningsins hefur verið áætlað, eins og áður kom fram, samtals 3,4 milljónir bandaríkjadala. Hlutdeild Novators er því 21,8% af þeirri fjárhæð eða 740 þús. bandaríkjadalir sem svara til tæplega 100 millj. ísl. kr. Samkomulagið felur í sér að Novator endurgreiði ríkinu þá upphæð að lágmarki en sú fjárhæð getur hins vegar hækkað við tilteknar aðstæður, eins og ég vík nánar að hér á eftir.

Í slíku framsali er ekki einungis vísað til mögulegs söluhagnaðar eða arðgreiðslna á tímabilinu heldur felst í samkomulaginu greiðsluskuldbinding Novators gagnvart ríkissjóði á hlutdeild fyrirtækisins í áætlaðri ríkisaðstoð á gildistímanum. Til að mæta þessari greiðsluskuldbindingu framselur Novator til ríkisins, að því marki sem nauðsynlegt er til að mæta skuldbindingunni, arðgreiðslur frá félögunum og söluverð hlutafjárins, komi til þess að Novator selji hlutafé sitt í félögunum, á þann hátt að þessar greiðslur fara beint frá félögunum eða viðkomandi kaupanda hlutafjárins til ríkisins. Skal greiðslum að fullu lokið innan tíu ára frá undirritun samningsins. Sé ríkisaðstoðin hins vegar ekki að fullu uppgreidd innan þess tímafrests skal Novator þá standa ríkissjóði skil á eftirstöðvunum, óháð arðgreiðslum úr félögunum eða söluverði hlutafjárins.

Enn fremur mun koma fram í sérákvæðinu að komi til sölu á eignarhlut Novators í félögunum, með söluhagnaði, framselji Novator til ríkisins, sem hluta af fjárhagslegum ávinningi af ríkisaðstoðinni, þann söluhagnað sem myndast af þessum hlut Novators. Með því er tryggt að Novator endurgreiði ekki einungis stofnfjárhæð ríkisaðstoðarinnar heldur einnig hluta Novators í hugsanlegri ávöxtun sem verður af henni þannig að hagnaður sem verður vegna ríkisaðstoðarinnar sitji ekki eftir hjá fyrirtækinu. Sem dæmi má nefna að ef hlutur Novators tvöfaldast í verði við sölu þá tvöfaldast að sama skapi endurgreiðsla Novators til ríkisins.

Jafnframt mun koma fram í sérákvæðinu að Novator muni ekki auka við hlutfallslegan hlut sinn í félögunum eða öðrum félögum er að verkefninu koma í framtíðinni. Samkomulag hefur verið gert við eiganda Novators um þessa tilhögun með vísan í yfirlýsingu Björgólfs Thors Björgólfssonar sem birt er sem fylgiskjal með nefndarálitinu. Þá liggur fyrir samkomulag við þann aðila um að komi til þess að fyrirtækið njóti hagnaðar af sölu hlutar í félögunum muni sá hagnaður, að því marki sem hann gangi ekki til greiðslu skulda, verða nýttur til frekari fjárfestinga í íslensku atvinnulífi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til breytingu á texta frumvarpsins með tilliti til þessa sérákvæðis enda er það í fullu samræmi við 7. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um framsal á réttindum félaganna og eigenda þeirra sem gera samninginn við ríkið. Það er nákvæmlega það sem hér er á ferðinni, samkomulag um framsal á tilteknum réttindum eins eiganda félaganna svo sem kveðið verður á um í fyrrnefndu sérákvæði samningsins. Ég vil leggja áherslu á að þessi tillaga að lausn um sérákvæði í fjárfestingarsamningnum er sáttaleið sem tekur tillit til þess siðferðilega vanda sem tengist einum ábyrgðaraðila verkefnisins án þess þó að gripið sé til róttækra aðgerða sem mundu grafa undan verkefninu og þar með þeirri mikilvægu atvinnusköpun sem því tengist. Ég tel að þessi lausn sé viðunandi og ég árétta að ég tel það skyldu löggjafans í ljósi þess siðrofs sem varð í kjölfar bankahrunsins að leggja sitt af mörkum til að siðferðileg ábyrgð verði þyngri á metunum í samskiptum stjórnvalda og atvinnulífs í framtíðinni.

Í því ljósi vil ég nefna að nú hefur verið lagt fyrir þingið nýtt frumvarp um ívilnanir vegna fjárfestinga í íslensku atvinnulífi, mikilvægt frumvarp sem boðar nýjar áherslur stjórnvalda og stefnubreytingu frá sérstökum fjárfestingarsamningum yfir í almennar reglur um ívilnanir sem eru gegnsæjar og standa þeim til boða sem uppfylla tiltekin skilyrði. Það er mín skoðun og ég mun leggja það til í iðnaðarnefnd að við látum skoða það sérstaklega í meðförum þess frumvarps hvort setja eigi inn skilyrði sem lúta að samfélagslegri ábyrgð og viðskiptasiðferði þeirra fyrirtækja sem óska eftir samningum við stjórnvöld um ívilnanir í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Iðnaðarnefnd ræddi nokkuð orkuþörf gagnaversins en rétt er að árétta að ekki er um það að ræða að í frumvarpinu eða drögum að fjárfestingarsamningi verði samið um sölu á orku til gagnaversins. Félögin hafa þegar gert raforkusamning við Landsvirkjun um kaup á 25 MW af raforku sem er ætluð til nota fyrir fyrsta áfanga þess, þ.e. eina byggingu af fjórum. Í raforkusamningnum er jafnframt kveðið á um að Landsnet skuli leggja sig fram við að veita viðbótarorku komi til þess að félagið hafi þörf fyrir meiri raforku eða allt að 50 MW.

Í 8. gr. frumvarpsins er veitt heimild til að vísa ágreiningi milli aðila til gerðardóms sem leysir úr máli á grundvelli gerðardómsreglna Alþjóðaverslunarráðsins eins og þær eru í gildi á hverjum tíma. Nefndinni barst athugasemd um að lög um samningsbundna gerðardóma hefðu ekki fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað erlendis á sviði úrlausnar ágreiningsmála. Meiri hlutinn telur rétt að skoða hvort styrkja þurfi þá löggjöf.

Ákvæði frumvarpsins ná aðeins til þess að heimila iðnaðarráðherra að gera samninga við tiltekna aðila um að reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ. Ekki er í frumvarpinu mælt sérstaklega fyrir um reglur um starfsemi gagnavera almennt. Kom til tals í nefndinni að hugsanlega þyrfti að skoða nánar reglur um persónuvernd. Um verndun persónulegra gagna og meðferð þeirra gilda lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau eru í fullu samræmi við löggjöf Evrópusambandsins og ber íslenskum stjórnvöldum að innleiða í íslenska löggjöf gerðir sambandsins á þessu sviði þar sem þær eru hluti af hinum innri markaði og falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Meiri hlutinn telur mikilvægt að fylgst verði með alþjóðlegri þróun í þessum efnum, þar á meðal hvort þörf verði á að styrkja lagaumhverfið hér á landi hvað varðar starfsemi gagnavera almennt, m.a. með hliðsjón af álitamálum um persónuvernd, ábyrgð eigenda gagnaversins og öryggismálum.

Sá fjárfestingarsamningur sem hér um ræðir er sá fyrsti hér á landi sem gerður er til að styrkja uppbyggingu á gagnaveri. Fyrirmyndir eru um það erlendis að í kringum slíka starfsemi byggist klasar af hátækni- og þjónustufyrirtækjum og vissulega eru væntingar um það sama hér á landi. Gagnaver Verne Holdings ehf. á Suðurnesjum er fjárfestingarverkefni að verðmæti um 94 milljarða kr. Reiknað er með að um 180–220 störf skapist þegar framkvæmdir vegna verkefnisins eru í hámarki, þar af er áætlað að um 100 störf skapist á vegum fyrirtækisins við reksturinn og á sjö ára tímabili er áætlað að um 100 störf skapist í byggingariðnaði. Um fjölbreytt störf er að ræða, einkum fyrir sérfræðimenntað fólk í rafmagnsverkfræði, vélaverkfræði og upplýsingatækni, auk starfa í byggingariðnaði á framkvæmdatímanum. Þá hefur verið áætlað að um 330 afleidd störf geti orðið til í tengslum við þetta verkefni. Alls má því reikna með að um 500 störf geti skapast í tengslum við byggingu og rekstur gagnaversins á Suðurnesjum. Það munar sannarlega um minna á þessu atvinnusvæði þar sem 1.700 manns eru atvinnulausir og hlutfall atvinnulausra er það hæsta á landinu öllu.

Á þingskjali með meirihlutaáliti iðnaðarnefndar eru tvær breytingartillögur sem báðar tengjast gildistíma samningsins. Rétt er að geta þess að í lokafrágangi nefndarálits meiri hluta nefndar láðist að huga að nægilegri samræmingu orðalags milli gildistökuákvæða þessa frumvarps og hins nýja frumvarps um ívilnanir sem ég ræddi áðan. Ég legg því til að málinu verði vísað til iðnaðarnefndar milli 2. og 3. umr. þar sem ég mun leggja til þá breytingu á orðalagi 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að ákvæði samningsins skuli gilda í 10 ár frá því að skattskyldar tekjur myndast en það er til samræmis við orðalag í 2. mgr. 9. gr. hins nýja frumvarps iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Að auki leggur nefndin til breytingu til samræmis á 1. mgr. 4. gr. þar sem við leggjum til að c-liður 1. tölul. 1. mgr. falli brott.

Ég vil að lokum þakka öllum fulltrúum í iðnaðarnefnd fyrir gott samstarf við meðferð þessa máls í nefndinni. Ég tel að framlag þeirra allra hafi verið mikilvægt og bætt málið þótt skoðanir hafi eðlilega verið skiptar um einstök atriði.

Þar með hef ég lokið framsögu um nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar.

Undir álitið rita Skúli Helgason, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, Björn Valur Gíslason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, með fyrirvara, Ólafur Þór Gunnarsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson.