138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum.

527. mál
[18:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vildi koma hér upp til að lýsa fullum stuðningi við þessa þingsályktunartillögu sem mér finnst vera fersk, það er verið að hugsa út fyrir boxið eins og maður segir og kanna nýja möguleika til þess að auka hér atvinnu og tækifæri og skapa möguleika í bæði ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum. Það er ljóst að með opnun Landeyjahafnar mun landslagið og hegðun okkar breytast með tilliti til þess að Vestmannaeyjar verða þá ekki svona órafjarri eins og þær virðast hjá sumum heldur verður þetta skottúr og öll aðstaða fyrir hendi þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að kanna möguleika eins og hér eru lagðir til um siglingar frá Vestmannaeyjahöfn til Bretlandseyja.

Ég, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, heiti mínu liðsinni við þetta mál og vona svo sannarlega að það verði tekið til meðhöndlunar í hv. samgöngunefnd og að við getum sameinast um að veita þessu góða máli brautargengi.