138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

gjaldþrotaskipti og fyrning kröfuréttinda.

449. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um annars vegar gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, og hins vegar lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007. Flutningsmenn frumvarpsins eru ásamt þeirri sem hér stendur: Ögmundur Jónasson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir og Margrét Tryggvadóttir.

Við þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu má leiða að því líkur að stór hópur einstaklinga sem tók bæði gengistryggð og verðtryggð lán verði gjaldþrota á næstu mánuðum og missirum. Telja flutningsmenn því nauðsynlegt að breyta lögum um gjaldþrotaskipti og lögum um fyrningu kröfuréttinda. Flutningsmenn leggja til að kröfur fyrnist að hámarki að fjórum árum liðnum frá lokum gjaldþrotaskipta. Þannig verði fyrningarfrestur krafna eftir gjaldþrot fjögur ár frá þeim degi þegar skiptum lauk hafi krafan verið viðurkennd en annars frá þeim degi þegar kröfunni var lýst. Eftir að þessi fyrningarfrestur er hafinn verði ekki hægt að slíta fyrningu. Sá fyrirvari er þó gerður að hafi krafa orðið til vegna ólögmætra athafna þrotamannsins skulu almennar reglur um fyrningu gilda. Mikilvægt er að tryggja virkni þessa úrræðis án þess þó að gefa færi á því að það sé misnotað til að komast undan ábyrgð á kröfum sem stofnað er til með ólögmætum hætti.

Frú forseti. Markmið þessara lagabreytinga er að gera einstaklingi sem gengur í gegnum gjaldþrot unnt að vinna sig út úr þeirri stöðu. Samkvæmt gildandi lögum leiðir gjaldþrot einstaklings núna til þess að fyrningu krafna er slitið og byrjar nýr fyrningarfrestur að líða á þeim degi er slitum er lokið. Eftir það er mögulegt að slíta fyrningu að nýju samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda. Augljóst er að með gildandi reglum hallar á einstaklinga í greiðsluvandræðum og gjaldþrot er ekki sú núllstilling sem nauðsynlegt er að það sé.

Með því að kveða á um að fyrningu verði ekki slitið að nýju er kröfuhöfum gefinn tími og kostur á því að innheimta skuldir sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrot en þess jafnframt gætt að skuldarar standi ekki uppi með skuldir sínar í fjölda ára eftir gjaldþrot. Ábyrgð hlutafélaga eða einkahlutafélaga á skuldum sínum fellur niður við gjaldþrot enda eru þau þá ekki lengur til. Það má því segja að hér sé verið að tryggja nokkurt jafnræði með skuldurum án þess þó að ganga of nærri réttindum kröfuhafans.

Frú forseti. Í 18. gr. viljayfirlýsingar til AGS sem efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, forsætisráðherra og seðlabankastjóri undirrituðu nýlega segir að ekki verði frekari frestanir á nauðungarsölum og þær verði settar á áætlun í október. Í lok mars höfðu 59 fasteignir verið seldar á nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík á árinu. Þær voru 207 á síðasta ári en nauðungarsölubeiðnir 2.504.

Frú forseti. Það er einsýnt að mörg heimili munu ekki aðeins missa eigur sínar við gjaldþrot heldur jafnframt sitja uppi með kröfur sem lítil von er til að hægt verði að greiða upp. Hvatinn til að hverfa af landi brott er mikill fyrir mörg heimili. Hætta er á að ástandið verði mörgum svo erfitt að þeir leiðist til þess að stunda svarta atvinnustarfsemi sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir skattstofn ríkisins á næstu árum.

Frú forseti. Það eru því augljósir almannahagsmunir að búa svo um hnútana að ábyrgð einstaklings á skuldum sínum falli niður á einhverjum tímapunkti eftir að hann hefur gengið í gegnum gjaldþrot. Með því að kveða á um að einstaklingur beri ábyrgð á skuldum sínum í hámark fjögur ár eftir gjaldþrot ætti jafnframt að vera tryggt að fólk sem gengur í gegnum þá erfiðu raun sem gjaldþrot er taki áfram virkan þátt í samfélaginu.