139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef lýst hér tel ég eftir því sem ég best veit að hægt hefði verið að standa að þessu á heppilegri hátt, hraða vinnunni. Ein af meginreglum réttarfarsins er sú að allur tími sem líður í málum frá því að ákært er og þangað til málið kemur fyrir dóm er metið sakborningi í hag.

Ég er ekki í stakk búinn til að meta það hér og nú hvort þetta valdi einhvers konar réttarspjöllum. Þetta mál er einfaldlega þannig úr garði gert að það er einstakt, landsdómur hefur ekki oft komið saman, og ef við tökum mið af þeim tíma sem líður í sakamálum almennt (Forseti hringir.) gæti ég trúað að þetta sé svona innan eðlilegra marka.