140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

eignir SpKef.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Með fullri virðingu, það er eins og ráðherrar í ríkisstjórninni skilji ekki um hvað vandinn snýst. Gleymum því ekki að tekin var ákvörðun um að stofna sparisjóð SpKef. Er verið að segja að stofnaður hafi verið nýr sparisjóður þannig að það vantaði 19 milljarða upp á að eignir stæðu undir skuldum? Er verið að segja það núna 2012? Voru gerð svona hrapalleg mistök í upphafi þegar tekin var ákvörðun um að halda rekstrinum áfram eða rýrnuðu eignirnar? Hvenær byrjuðu þær að rýrna? Var það kannski sú ákvörðun að stofna sparisjóðinn sem voru mestu mistökin? Hver mat eignirnar? Hver tók ákvarðanir? Á grundvelli hvaða upplýsinga voru ákvarðanir teknar, fyrst um að stofna sparisjóðinn, síðan um að leggja hann inn í Landsbankann? Hvernig stóð á því að Landsbankinn sá strax að eignirnar höfðu verið stórkostlega ofmetnar? Það eru spurningar (Forseti hringir.) sem koma verða svör við og það þýðir ekki alltaf að harma á því að bankinn hafi í fortíðinni verið illa rekinn vegna þess að ef eignirnar voru ekki til staðar í upphafi átti aldrei að stofna SpKef.