140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

tap ríkissjóðs vegna fjármálafyrirtækja.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í þeim fullyrðingum sem hann setur fram úr ræðustól Alþingis? Hvað hefur hann fyrir sér í því að fullyrða að tapið sé vegna inngrips fjármálaráðherra? Af hverju stöndum við í þessum sporum? Af hverju erum við að glíma við þennan mikla vanda? Það er vegna þess sem gerðist á árunum fyrir hrun. Tapið er vegna aðgerða sem áttu sér stað á árunum fyrir hrun, af ákvörðunum þeirra stjórnmálamanna og eigenda fjármálafyrirtækja sem þá stýrðu hér. Það er fjarstæða að halda því fram að það tap sem við glímum við núna og sá reikningur sem við erum núna að fá í hendurnar og þjóðin þarf að greiða til að standa við yfirlýsingar stjórnvalda um að innstæður allra landsmanna séu tryggðar, sé vegna inngrips fjármálaráðherra.

Hæstv. forseti. Fyrir þessu þarf hv. þingmaður að færa frekari rök og reiða fram gögn hvað þetta varðar.