140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

tap ríkissjóðs vegna fjármálafyrirtækja.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér er komið áhugavert fordæmi frá hæstv. fjármálaráðherra þess efnis að allt tapið sem orðið hafi af falli bankakerfisins, hruninu svokallaða, sé vegna stjórnenda bankanna en hafi ekkert með viðbrögð stjórnmálamanna eða það hvernig þeir hafa haldið á málum að gera.

Ég ítreka samt spurninguna til hæstv. fjármálaráðherra: Hvert verður tapið af þeim fyrirtækjum sem gripið hefur verið inn í af hálfu ríkisins frá upphafi árs 2010 í krafti laga nr. 125/2008? Ég er ekki að spyrja um ástæðurnar fyrir því að hæstv. ráðherra telur að ríkið hafi þurft að grípa í, ég spyr: Hvert verður tapið af þeim aðgerðum sem ríkið beitti þar í krafti laga nr. 125/2008?

Ég ítreka líka spurninguna um hvort hæstv. ráðherra telji sér stætt á því að beita þessum lögum í ljósi þess að í þeim segir að þau skuli endurskoðuð (Forseti hringir.) fyrir árslok 2009.