140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Umræður um erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi stóðu alla síðustu öld. Það er athyglisvert að á fyrsta hluta 20. aldarinnar átti sér stað hér á landi mjög mikil erlend fjárfesting. Sú fjárfesting fór með beinum hætti inn í atvinnulífið af margs konar tagi. Í þessu sambandi mætti kannski sérstaklega nefna til sögunnar það að Íslandsbanki hinn fyrsti sem stofnaður var á öndverðri 20. öld var fjármagnaður með erlendu fjármagni, a.m.k. að hluta til, og var skráður í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Það má segja sem svo að með hruninu mikla og kreppunni á fjórða áratugnum hafi þessi þróun í raun og veru stöðvast. Ísland var tiltölulega opið land að þessu leyti til að því er virðist þegar maður les í gegnum hagsöguna og það sem menn hafa reitt fram í þeim efnum. En með heimskreppunni urðu gríðarlegar miklar viðhorfsbreytingar, ekki bara á Íslandi, heldur í heiminum öllum vegna þess að þá fóru þjóðfélögin að loka sig af til þess að reyna að verja sig gagnvart áhrifum heimskreppunnar. Það dró úr almennum viðskiptum milli landa og fjárfestingar, erlendar fjárfestingar hér á landi minnkuðu í samræmi við það. Þetta var hluti af erlendri þróun að hluta til, en við Íslendingar tókum illu heilli skrefið enn lengra og það var auðvitað þannig að lengst af eftir þetta urðu miklar deilur hér á landi í hvert skipti sem á því var imprað að hér ætti að hefja einhvers konar erlenda fjárfestingu.

Gleymum því ekki þegar deilurnar stóðu, til dæmis um byggingu álversins í Straumsvík eða járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, snerust þær deilur ekki bara um það hvort rétt væri að virkja og vegna umhverfisáhrifa af því, þær snerust ekki um ýmsa aðra þætti sem við erum nú að ræða um þegar við fjöllum um uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Íslandi, stóriðju, heldur snerust þær ekki síst um það að nú væri verið með þeim fjárfestingum útlendra aðila að hleypa útlendingum í allt of miklum mæli inn í íslenskt atvinnulíf. Í því væri hætta búin fyrir þjóðfélag okkar ef útlend stórfyrirtæki væru að sölsa undir sig atvinnulífið og festa sig hérna í sessi og gætu haft síðan í framhaldinu óeðlileg áhrif innan lands, bæði á þjóðmálin, efnahagsmálin, atvinnulífið og þar fram eftir götunum.

Þetta var í raun og veru deilan. Þetta var stóra málið sem menn rifust um hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Sú umræða hefur í einhverjum mæli haldið svona áfram. En ég tel að með þeirri tillögu til þingsályktunar, sem mér heyrist núna að allir flokkar geti sætt sig við í meginatriðum, sé verið að setja þessa deilu niður. Það verður ekki lesið öðruvísi í tillögutextann en svo að þeir sem samþykki hann séu að fagna því að erlend fjárfesting aukist á Íslandi. Það er heilmikil breyting frá því sem áður var. Þá getum við sagt að Alþingi sé með þessu að afgreiða dálítið aftur fyrir sig deilurnar sem stóðu hér á sjöunda áratugnum, áttunda áratugnum, níunda áratugnum og kannski lengur á Íslandi, um það hvort erlend fjárfesting yfir höfuð væri æskileg.

Það sem nú er verið að segja, með leyfi virðulegs forseta, er þetta:

„Alþingi ályktar að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu og markaðssetning byggð á skýrum markmiðum sé sérstakt viðfangsefni sem leggja beri aukna áherslu á.“

Með öðrum orðum er verið er að segja: Við viljum erlenda fjárfestingu, við teljum að hún sé góð og teljum að leggja eigi á hana aukna áherslu.

Í rauninni er verið að lýsa algjörri viðhorfsbreytingu í þessu frá þeim sjónarmiðum sem voru borin fram hérna í þjóðfélagsumræðunni og inn á Alþingi á síðustu áratugum síðustu aldar. Það sem er athyglisvert núna í þessu sambandi og ég get ekki stillt mig um að nefna er að þessi tillaga til þingsályktunar er ekki borin fram af nýfrjálshyggjunni, hún er ekki borin fram af Sjálfstæðisflokknum, hún er ekki borin fram af þeim stjórnmálaöflum sem hafa verið orðuð frekar við það að vilja laða hingað erlent fjármagn — hún er borin fram af þeirri ríkisstjórn sem ábyrgðarmenn hennar kalla hina fyrstu hreinræktuðu á Íslandi. Er ekki dálítið sérkennilegt að hugsa til þess, miðað við hvernig allt veltist nú um í heiminum, að þegar við illu heilli fengum yfir okkur fyrstu vinstri stjórnina, þá hreinræktuðu, gerist það með þeim hætti að sú vinstri stjórn afgreiðir eiginlega frá sér aftur fyrir sig gömlu hugmyndirnar um að hérna megi ekki vera erlend fjárfesting því að hún sé vond, ekki eigi að laða hingað erlent fjármagn því það fari að ráða öllu og það megi ekki hafa hérna útlendinga í miklum mæli í atvinnulífinu.

Þetta er auðvitað ótrúlega, við skulum segja mjög athyglisvert, svo að ég taki nú ekki dýpra í árinni, að við séum í rauninni í þeirri stöðu að verið sé að reyna að leggja það upp með tillögu til þingsályktunar að við viljum aukna erlenda fjárfestingu, meira erlent fé, áhættufé, inn í íslenskan atvinnurekstur. Svo getum við deilt um það hvort þessi ríkisstjórn vilji þetta í raun og veru. Það er ekki stóra málið. Stóra málið er að ríkisstjórnin er að segja það með þeirri tillögu sem hún leggur fram og efnahags- og viðskiptanefnd þar sem allir flokkar eiga sæti tekur undir í nefndaráliti.

Það er alveg rétt sem kemur hér fram að okkur hefur gengið illa að laða til okkar erlenda fjárfestingu. Við höfum verið að fá erlenda fjárfestingu í talsverðum mæli inn í stóriðjuna. Það hefur auðvitað verið forsendan fyrir því að við gætum reist þessi stóriðjuver. Við höfðum ekki fjármuni og höfðum ekki tæknilega þekkingu til að setja slíkt á laggirnar. Tæknilega þekkingin er sannarlega til staðar í dag en fjármagn hefur skort. Þess vegna er það út af fyrir sig áhugavert að hugsa þetta aðeins í stóru samhengi.

Að öðru leyti er það þannig að okkur hefur ekki gengið vel almennt talað að fá erlent fjármagn inn í okkar fyrirtæki. Við getum nefnt einstök dæmi en þau eru bara því miður ekki mjög mörg. Það finnst mér vera stóra umhugsunarefnið sem við þurfum að reyna að átta okkur á. Hvers vegna hefur það gerst? Af hverju höfum við ekki verið með meiri fjárfestingu en raun ber vitni í atvinnulífi okkar?

Það sem við höfum hins vegar verið að gera í heilmiklum mæli er að Íslendingar hafa verið að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum erlendis. Við þekkjum þá sögu að því leytinu til, það sem brást í þeim efnum. Það var fjárfestingin sem fór fram í gegnum stóru fjármálafyrirtækin og í gegnum þá aðila sem tengdust þeim fyrirtækjum, sem voru eigendur í þeim fyrirtækjum, sem síðan notuðu þau fyrirtæki sem þeir höfðu fjárfest í erlendis til að skila aftur peningum í fjárfestingu sem þeir kusu í einhverjum mæli hér heima. Þegar tölurnar eru skoðaðar um fjárfestinguna hér á landi, erlendu fjárfestinguna, hefur hún einmitt átt sér uppruna af þessu taginu. Það varð hins vegar endaslepp saga sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni núna.

Að öðru leyti vil ég segja að mjög margt af því sem Íslendingar hafa verið að gera í slíkri fjárfestingu hefur bara tekist mjög vel. Við nefnum gjarnan dæmi eins og Actavis og Marel og við nefnum Össur. Þá megum við ekki gleyma því að sjávarútvegurinn okkar hefur verið mjög umsvifamikill í þessu. Gömlu fyrirtækin eins og Iceland Seafood og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna voru í slíkri fjárfestingu og opnuðu sér leiðir inn á markaðinn og skiluðu þannig ábatanum af þeirri fjárfestingu í betri verðum á okkar fiski sem þannig hríslaðist um samfélag okkar og varð auðvitað mjög til góðs.

Þó að slysin hafi gerst í fjárfestingum fjármálafyrirtækjanna á síðustu tíu, fimmtán árum megum við ekki segja sem svo: Nú skulum við hætta þessu, nú skulum við líta þannig á að við séum brennt barn. Það erum við ekki. Á margan hátt hefur þetta tekist prýðilega. Við eigum þess vegna að reyna að halda áfram á þessari leið. Stóra málið er síðan til viðbótar hvernig við getum tryggt að við getum laðað til okkar meiri erlenda fjárfestingu beint inn í atvinnulíf okkar.

Mér finnst það vera mikið umhugsunarefni hvers vegna okkur hefur tekist svona illa til. Tvennt hefur verið nefnt öðru fremur sem talið er hafa valdið því að við höfum verið í þeim vanda — erum í þeim vanda öllu heldur núna. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, sem skrifaði ákaflega athyglisverða ritgerð sem fylgir með í fylgiskjölum þingsályktunartillögunnar, nefnir tvennt. Hann nefnir annars vegar íslensku myntina sem sé óstöðug og menn vantreysti henni og síðan nefnir hann pólitíska óvissu og pólitíska áhættu sem sannarlega er til staðar í dag.

Seinna atriðið hefur hins vegar ekki verið til staðar almennt talað á því tímabili. Við höfum ekki búið almennt talað við pólitíska áhættu, þvert á móti. Þegar stóriðjufyrirtækin hafa verið að koma hingað til lands hafa þau metið það svo að ekki ríkti pólitísk áhætta hér, ekki pólitísk óvissa. Ég man til dæmis þegar verið var að ræða um fyrirtæki sem nú heitir Norðurál á Grundartanga og Kenneth Peterson var að velta fyrir sér þeirri fjárfestingu, þá vó hann saman mögulega fjárfestingarkosti á Íslandi og til dæmis í Venesúela þar sem hann gat fengið ódýrara rafmagn, þar sem vinnuaflið var ódýrara o.s.frv. Á móti kom hins vegar hin pólitíska óvissa. Hún var ekki til staðar á Íslandi og það átti sinn hlut í því að þetta fyrirtæki reis á Grundartanga en ekki suður og vestur í Venesúela. Við getum því sagt sem svo að þessi þáttur, óvissuþátturinn, pólitíski óvissuþátturinn, er nýr af nálinni. Hann hefur komið núna á allra síðustu missirum.

Því miður, þrátt fyrir að við séum búin að vera með sömu ríkisstjórnina núna allt of lengi, á fjórða ár, hefur ríkisstjórninni ekki tekist að eyða pólitísku óvissunni. Hún er enn meiri en nokkru sinni áður. Hún birtist auðvitað gagnvart mörgum öðrum atvinnugreinum eins og sjávarútveginum. Hún birtist gagnvart landbúnaðinum í umsóknarferlinu að Evrópusambandinu. Hún birtist gagnvart erlendum fjárfestingum sem hafa verið að koma hingað til lands og hafa fengið heldur betur hraklegar trakteringar, verið hótað með því að ekki sé útilokað að fyrirtæki þeirra og fjárfesting þeirra verði þjóðnýtt o.s.frv. Auðvitað spyrst það út í þeim litla heimi sem er að velta Íslandi fyrir sér sem fjárfestingarkosti. Fyrir vikið hefur orðið minna meðal annars úr fjárfestingum þeirra aðila hér á landi en við hefðum mátt búast við.

Það eru margir áhugaverðir kostir við að fjárfesta á Íslandi. Gengi krónunnar hefur lækkað, raunlaun á Íslandi, og það skapar allt aðra stöðu og hefði að öðru óbreyttu að sjálfsögðu átt að laða að erlendar fjárfestingar, en þær komu ekki vegna þess að menn eru hræddir við íslensk stjórnvöld.

Síðan er það hitt sem menn nefna og Ásgeir Jónsson nefnir og fleiri hafa verið að segja að íslenska myntin er áhættuþáttur. Það kann að vera. Ég held að það skýri nú samt sem áður ekki alveg þetta mál. Berum okkur saman við annað lítið land sem þó er miklu stærra en okkar í íbúafjölda og að vexti og stærð hagkerfis, þ.e. Danmörku. Þá sjáum við til dæmis í þeim gögnum sem fylgja þingsályktunartillögunni að í Danmörku hefur orðið ótrúlega mikil erlend fjárfesting. Það sem við sjáum þar er að sú fjárfesting hefur orðið á mörgum sviðum. Því þurfum við að velta fyrir okkur: Hver er ástæðan? Ástæðurnar kunna að vera ýmsar. Ég hygg að ein ástæðan kunni að vera sú að við höfum verið með tiltölulega fábrotið atvinnulíf. Við höfum verið með ríkjandi sjávarútveg. Við höfum verið með stóriðjuna, erlenda fjárfestingin hefur orðið þar. Við höfum verið með ferðaþjónustu. Við vorum um tíma með öflugt fjármálakerfi. Og athyglisvert er að það var einmitt á þeim vettvangi sem menn ræddu um að þar gæti orðið erlend fjárfesting. Hún varð í einhverjum mæli þó að í ljós hafi verið að koma að hún hafi kannski verið á ýmsum sviðum hreint plat eins og þetta dæmi frá Kaupþingi og Tchenguiz-bræðrum hefur sýnt okkur fram á. En að öðru leyti er það þannig að við höfum verið með tiltölulega þröngt atvinnulíf, tiltölulega fábrotið. Stóru gerendurnir á þeim markaði hafa verið þessar fáu stóru atvinnugreinar okkar. Við viljum ekki opna fyrir erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi, þannig að við getum sagt að sviðið sé þrengra.

Stóra verkefnið okkar hlýtur þá væntanlega að vera það að reyna að búa til betri aðstæður hérna heima fyrir, auka fjölbreytni atvinnulífsins með þátttöku erlendra aðila ef verkast vill og reyna þannig að freista þess að auka erlenda fjárfestingu í atvinnulífinu.

Með öðrum orðum, það sem mér sýnist vera miklu nærtækara að segja er það að ástæða þess að við erum með tiltölulega litla erlenda fjárfestingu kunni miklu frekar að vera sú að við erum með fábrotið atvinnulíf, þess vegna sé svona minni áhugi á erlendri fjárfestingu. Ég vek líka athygli á í því sambandi að Danir hafa lengst af verið með sína mynt, eru raunar enn þá með sína mynt, þeir eru að vísu búnir að reyra hana við evruna, en hún er engu að síður sjálfstæð mynt. Fyrir þann tíma sem hún var bundin við evruna var erlend fjárfesting í Danmörku. Við hljótum því að skoða það vel hvernig Danir hafa farið að því að gera það sem okkur hefur ekki tekist, þ.e. að laða hingað erlenda fjárfestingu.

Ég vek líka athygli á tveimur dæmum í þessu sambandi. Ferðaþjónustan er gríðarlega vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Hingað til hefur ekki verið mikil erlend fjárfesting í þeirri atvinnugrein. Erlend fjárfesting er hins vegar mjög algeng í ferðaþjónustu í mörgum löndum, ekki bara Danmörku af því að ég hef verið að nefna það land, heldur mjög mörgum öðrum löndum. Ferðaþjónustan er atvinnugrein sem býður á margan hátt nokkuð vel upp á erlenda fjárfestingu. Sú mikla hóteluppbygging sem hefur orðið fram undir þetta á höfuðborgarsvæðinu hefur gerst að langmestu leyti án erlendrar fjárfestingar. Við sjáum hins vegar ákveðna vísbendingu um að núna kunni að vera að opnast áhugi hjá útlendingum á fjárfestingu á því sviði. Við nágrenni Hörpunnar miklu á að fara að rísa gríðarlega mikið og fínt hótel sem Marriott-keðjan ætlar a.m.k. að reka. Við sjáum þá að þarna er þó alla vega vísir að einhverri erlendri fjárfestingu. Ég hefði talið að í ferðaþjónustunni gæti verið tækifæri fyrir okkur til að byggja upp innviði hennar vel og vandlega þar sem við horfum fram á mikla aukningu í ferðaþjónustunni og möguleika erlendrar fjárfestingar.

Í annan stað get ég nefnt dæmi sem hefur líka verið dálítið í umræðunni. Loðdýrarækt er í dag einhver ábatasamasti atvinnurekstur á Íslandi, hvorki meira né minna. Menn höfðu reyndar talið þá atvinnugrein vonlausa fyrir ekki mörgum árum en margt hefur breyst, sem ég hefði gaman af að fara einhvern tímann yfir síðar, sem gerir það að verkum að nú hefur þetta algerlega snúist við. Við verðum vör við það að bændur, loðdýrabændur, eru bókstaflega að kalla eftir því að útlendingar komi og fjárfesti í loðdýrarækt á Íslandi, sem er að mínu mati mjög áhugavert og líka athyglisvert að það skuli vera íslenskir bændur sem kalla núna eftir slíkri fjárfestingu. Þeir telja einfaldlega að það muni styrkja atvinnugreinina í heild ef hún geti vaxið frá því sem nú er og sjá tækifæri í því að útlendingar fjárfesti þar.

Almennt talað vil ég segja að ég er áhugasamur um erlenda fjárfestingu. Það hefur verið stefna míns flokks. Eitt af því sem hefur gert það að verkum að ég er sjálfstæðismaður er að ég trúi því að skynsamlegt sé að leita eftir erlendu fjármagni almennt talað og tel skynsamlegt að það séu svona tiltölulega frí og frjáls milliríkjaviðskipti.

Ég vil þó draga tvær varnarlínur, ef ég get orðað það þannig, sem skipta miklu máli og menn verða þá að hafa í huga. Í fyrsta lagi er ég þeirrar skoðunar að við eigum ekki að hleypa útlendingum með beina fjárfestingu inn í íslenskan sjávarútveg. Ástæða er auðvitað sérstaða sjávarútvegsins. Hér erum við að nýta okkar mikilvægustu auðlind. Við höfum sett ákveðnar leikreglur sem hafa greinilega virkað mjög vel. Við erum með arðsamari sjávarútveg en flestar aðrar þjóðir. En við erum eina sjávarútvegsþjóðin í heiminum sem ræðir það í fullri alvöru að setja á sérstakan skatt á sjávarútveg af því það sé svo mikil arðsemi. Slíkt dettur engri annarri þjóð í hug, sem segir væntanlega þá sögu að menn eru að meta það þannig að íslenskur sjávarútvegur hafi einhverja yfirburði yfir sjávarútveg annarra þjóða og þoli slíka skattlagningu. Það hefur ekki verið skortur á fjármagni inn í íslenskan sjávarútveg. Menn sem eru þar fyrir hafa kannski ekki viljað endilega fá aukið hlutafé en það er önnur saga. Ég tel því að engin nauð reki okkur til þess að hleypa útlendingum inn í sjávarútveginn með beinni eignaraðild. Ég held að það sé grundvallaratriði fyrir okkur til að geta haft vald á nýtingu auðlinda okkar og tryggt að sú nýting verði sem mest og best í þágu þjóðarinnar að Íslendingar hafi einir rétt til þess að stunda hér fiskveiðar og við breytum ekki þeim lögum sem núna eru í gildi um bann við beinni erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi að nokkru leyti frá því sem er.

Í öðru lagi ætla ég að nefna annað dæmi sem hefur komið aðeins upp í umræðunni. Það er spurningin um kaup útlendinga á landi. Ég er út af fyrir sig ekki neikvæður gagnvart því að útlendingar kaupi hér jarðir, lönd og svæði. Þeir hafa verið að gera það í einhverjum mæli. En það er eitt sem skiptir mjög miklu máli í því sambandi sem menn hafa stundum ekki haft með í umræðunni og var til dæmis ekki í umræðunni hérna áðan, og það er þetta: Það er gríðarlegur munur á því hvort við erum að tala um kaup heiðarlegra kapítalista eða einstaklinga á jörðum eða landi á Íslandi sem ætla sér að nýta það með einhverjum hætti innan þeirra laga og reglna sem hér gilda, eða hvort um geti verið að ræða einhvers konar framlengdan arm annars ríkis. Það er það sem ég tel að þessi deila til dæmis um Nubo fyrir austan hljóti að þurfa að snúast um. Erum við að ræða um kínverskan kapítalista sem ætlar að fara að fjárfesta á Íslandi, eða erum við að tala um mögulega óbein kaup ríkis á landi annars ríkis? Við mundum aldrei fallast á að Þjóðverjar keyptu Vestfirði eða að Frakkar keyptu Eyjafjörð eða eitthvað slíkt. Við mundum aldrei fallast á það, ekki vegna þess að við værum á móti Frökkum. Það gengur bara einfaldlega ekki upp að eitt ríki kaupi land annars ríkis.

Umræðan ætti að mínu mati að snúast um það atriði þegar menn eru að fjalla um Grímsstaði og fjárfestingarnar þar. Erum við að sjá í raun og veru kínverskan kapítalista kaupa land þar? Eða erum við að horfa á það að hann sé einhvers konar framlengdur armur með óskilgreindum tengslum við kínversk stjórnvöld og sé þar með einhvers konar framlengdur armur þeirra með beinum eða óbeinum hætti?

Þetta eru þeir varnaglar sem ég vil a.m.k. reka niður í jörðina þegar ég tala um erlendar fjárfestingar sem ég almennt fagna. Á því verða auðvitað að vera tilteknar (Forseti hringir.) skorður og þar á meðal þær sem ég var rétt í þessu að nefna.