144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

störf þingsins.

[10:15]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Víðtæk verkföll standa yfir og vofa yfir. Það er ömurlegt, en er það óeðlilegt? Meiri hluti íslenskra heimila safnar skuldum eða nær varla endum saman, samkvæmt nýlegri könnun GALLUP. Ef ríkisstjórnin er sammála almenningi um að hann eigi náttúruauðlindirnar ætlar hún kannski að viðurkenna það í orði en alls ekki í verki; makrílfrumvarpið sýnir það svart á hvítu. Öryrkjum og ellilífeyrisþegum er skammtað við hungurmörk og virðast hreinlega eiga að éta það sem úti frýs.

Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,85% frá því að hún varð sjálfstæður gjaldmiðill. Með sama áframhaldi mun það kosta um hálfa milljón fyrir næstu kynslóð að fara í sund. Tómas Möller bendir á þetta í nýlegri grein á hringbraut.is. Hann bendir einnig á að vegna sveifluáhættuálags og krónuálags upp á 4–6% borga Íslendingar margfalda vexti og allt að 100 þús. kr. á mánuði í vexti af venjulegri íbúð umfram fjölskyldur í nágrannalöndum okkar. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir gjöfulu auðlindirnar og þrátt fyrir lítinn áhuga ríkisstjórnarinnar á að grípa til aðgerða sem nauðsynlegar eru til að bæta lífskjör almennings, öryrkja og ellilífeyrisþega, er það sérstakt kappsmál hennar að hanga á krónunni eins og hundar á roði og koma með öllum ráðum í veg fyrir að almenningur í þessu landi fái að ákveða sjálfur hvort hann vill ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, eins og þeir lofuðu fyrir kosningar. Hæstv utanríkisráðherra, sem hefur staðið sig alveg ágætlega í starfi, hefur algjörlega brugðist almenningi í því mikla hagsmunamáli.

Hvers vegna fer ríkisstjórnin svona með valdið sem henni er treyst fyrir? Er þetta kannski gamla sagan um auð og völd og sérhagsmunagæslu? Eða er þetta skeytingarleysi um hag fólksins í landinu, sem er vel lýst með sögunni af frönsku drottningunni sem spurði hvers vegna fólkið borðaði ekki kökur þegar henni var sagt að það ætti ekki brauð. (Gripið fram í: Hún gerði það ekki. Það er haugalygi.)