144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er ekki nokkur vafi á því að þetta gekk mjög vel. Þetta var, finnst mér, raunveruleg byggðaaðgerð. Þetta er byggðaaðgerð sem snýst ekki um nauðung, ekki um það að flytja stofnanir með manni og mús milli staða, þetta er ekki hugsun sem snýst um að flytja stofnanir eins og eitthvert box á milli staða. Þetta snýst um það að á 21. öldinni eru störf þeirrar gerðar að þú getur nánast unnið þau óháð stað og stund. Þetta snýst um að horfast í augu við þann veruleika og nýta sér hann. Það gerði Umhverfisstofnun með stæl og það ættu miklu fleiri stofnanir að gera.

Umhverfisstofnun er sérstaklega í færum til þess af mörgum ástæðum, en þetta gætu miklu fleiri stofnanir gert. Þetta gæti Fiskistofa líka gert. Þá væri starfsfólk að færa sig út frá öðrum sjónarmiðum en beinlínis staðsetningu stofnunarinnar og kannski miklu frekar út frá því hvar boðið er upp á öflugt tómstundastarf fyrir börn eða hvar lúðrasveitin er og hvar gott íþróttafélag er (Forseti hringir.) o.s.frv. Það gætu þá verið önnur sjónarmið uppi sem lúta meira að félagslegum þáttum en ekki bara að vinnustaðnum, (Forseti hringir.) sem er gamaldags nálgun.