149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:04]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er rétt að forseti hafi nokkur orð um það hvernig þessi dagskrá er til komin eða hugsuð. Á síðasta fundi forseta með þingflokksformönnum, sem var áður en fundir hófust í gær, í eftirmiðdaginn, var það eitt sagt um framhaldið að umræður myndu að óbreyttu hefjast um þriðja orkupakkann sem og varð og var fundað til kvölds um það mál. Á þeim fundi var ekkert rætt um dagskrá fundar í dag. Hún tekur vissulega mið af þeim aðstæðum sem hér eru, í fyrsta lagi að við erum komin fram yfir þann tíma sem starfsáætlun tók til. Hún hafði að vísu verið tekin úr sambandi nokkrum dögum áður. Meðal annars af þeim ástæðum er t.d. ekki á dagskrá liðurinn óundirbúnar fyrirspurnir vegna þess að hefðbundið er að víkja slíkum liðum til hliðar eða láta þá mæta afgangi gagnvart því verkefni sem við blasir á þingi þegar það ætti að vera að nálgast sín starfslok. Þá er áherslan lögð á forgang þeirra mála sem tilbúin eru til afgreiðslu.

Eins og allir vita tókst ekki samkomulag í gær meðal forystumanna flokka um framhaldið og forseti greip því til þess ráðs að raða dagskránni þannig upp að fremst á henni og langt niður eftir dagskránni væru þau mál sem full samstaða er um, þar sem eitt nefndarálit liggur fyrir. Út úr því má væntanlega lesa vilja þingsins til að afgreiða og samþykkja þau mál. Þannig er dagskráin samansett. Forseti treystir því að við getum notað daginn vel til að komast eitthvað áleiðis við að afgreiða mál sem full samstaða er um. Varla getur það verið markmið nokkurs manns að senda þau skilaboð frá Alþingi Íslendinga að það sé óstarfhæft.