149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[14:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Mér finnst mjög ánægjulegt að halda ræðu í 2. umr. um þetta mál og sjá fyrir endann á því mikla réttlætismáli sem við nokkur höfum unnið að að koma í gegnum þingið. Þess ber að geta að hv. varaþingmaður okkar Pírata, Oktavía Hrund Jónsdóttir, var fyrst okkar til þess að leggja þetta fram og vann frumvarpið í samvinnu við hv. þm. Smára McCarthy sem ég tel að eigi líka miklar þakkir skildar fyrir sína vinnu í nefndinni um þetta mál. Ég hef nú endurflutt málið tvisvar sinnum og svipað mál kom líka fram frá hv. fyrrverandi þingmanni, Róberti Marshall, sem sneri reyndar bara að tíðavörum en ekki getnaðarvörnum eins og lagt er til í þessu frumvarpi.

Mér þykir þetta gríðarlega mikilvægt réttlætismál og mér hefur þótt mjög vænt um þær umsagnir sem við höfum fengið þar sem farið er yfir mikilvægi þess að auðvelda aðgengi að tíðavörum og getnaðarvörnum og þá sér í lagi fyrir fátækari konur sem í sumum tilfellum eiga bara erfiðara en aðrar konur með að lifa sínu lífi vegna vonds aðgengis að bæði tíðavörum og getnaðarvörnum. Eins og staðan er núna eru þessar nauðsynjavörur flokkaðar sem lúxusvörur en þær eru ekki á sama stað og ýmsar nauðsynlegar hreinlætisvörur sem við göngum að sem gefnu að séu ekki óhóflega skattlagðar. Eins og hv. þm. Smári McCarthy minntist á hefur oft verið talað um bleikan skatt í þessu samhengi.

Mig langar líka, áður en ég held áfram, að þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem stýrði nefndinni og tók strax vel í þetta mál þegar það komst í fréttir fyrir áramót og lýsti yfir stuðningi við það þá. Mér fannst líka ánægjulegt að heyra hversu mikill stuðningur var innan nefndarinnar við þetta mikilvæga mál.

Tíðavörur og getnaðarvarnir eru grunnvörur fyrir konur og það er óásættanlegt að getnaðarvarnir fyrir karla séu í lægra virðisaukaskattsþrepi á meðan getnaðarvarnir fyrir konur eru það ekki. Mér finnst hins vegar ákveðið umhugsunarefni, ef ég skildi rétt það sem kom út úr nefndinni, að almennt séu lyf í hærri virðisaukaskattsflokki. Ég held að við mættum endurskoða það vegna þess að mér finnst algjörlega óþolandi að við flokkum lyf sem einhvers konar lúxusvöru. Það gengur að mínu mati ekki upp í að vera sanngjörn ráðstöfun. Mér finnst að við mættum hugsa um það líka í framtíðinni því að öll getum við þurft á lyfjum að halda og við höfum séð það í okkar heilbrigðiskerfi að þá skiptir efnahagur gríðarlega miklu máli um hvort t.d. viðkomandi hafi efni á frumlyfi frekar en samheitalyfi sem stundum virkar töluvert betur. Aðgengi að lyfjum og að þurfa einhvern veginn að gera upp á milli þeirra og einmitt kannski ekki geta keypt sér þá getnaðarvörn sem hentar hverri konu best vegna þess að hún hefur t.d. of háan upphafskostnað eða of háan viðhaldskostnað er að sjálfsögðu mjög leitt vegna þess að eins og við konur sem höfum notað getnaðarvarnir vitum eru þær misgrimmar í sínum aukaverkunum og henta misvel fyrir konur, bara eftir því hvernig þær eru. Það tekur stundum svolítinn tíma að finna þá réttu og þá er ágætt að það sé alla vega verið að stíga skref til þess að gera það auðveldara og aðgengilegra fyrir konur að finna þá getnaðarvörn sem þeim hentar best og að kostnaðurinn standi þar ekki óhóflega í vegi.

Það er í raun ekkert gríðarlega margt að segja um þetta mál annað en að það liggur bara beint við að það gangi ekki að nauðsynjavörur, nauðsynlegar hreinlætisvörur og nauðsynlegar getnaðarvarnir fyrir konur, sæti öðrum skilyrðum, hærra verði og verri skilyrðum en sambærilegar vörur fyrir karla. Þess vegna fagna ég því að við séum að stíga skref í átt að því að einmitt afnema bleika skattinn, alla vega á þessu sviði.

Ég þakka allan þann stuðning sem ég hef fengið í gegnum umsagnir og við sem höfum verið að vinna þetta mál. Mér hefur fundist nefndin vinna það mjög vel og koma til móts við þau álitaefni sem upp komu um hvernig best væri hægt að framkvæma þennan vilja. Ég vona að þetta löggjafarþing verði mér sammála í að samþykkja þetta mikilvæga mál því að það er löngu kominn tími til og ég held að við ættum ekki að bíða neitt lengur heldur bara drífa þetta í gegn.