149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

íslenska sem opinbert mál á Íslandi.

443. mál
[21:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir mjög greinargott nefndarálit og þá miklu alúð sem hún leggur í málið. Ég vil líka þakka öllum þeim sem hafa komið fyrir nefndina, öllum þeim sem hafa sent álit og lagt á sig vinnu til að bæta þingsályktunartillöguna. Eins vil ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls fyrir það hversu skemmtilegir og málefnalegir þeir eru.

Ég held að sú þingsályktunartillaga sem við höfum fyrir framan okkur verði til þess að efla íslensku sem opinbert mál. Ég tek undir með þeim sem segja: Við eigum að nota íslenskuna. Við eigum ekki að vera feimin við hana, við eigum að hafa þetta opið og hlýtt tungumál og hvetja alla til að nota íslenskuna alls staðar og þannig lifir hún á vörum okkar. Við geymum hana ekki á safni eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði og ég tek heils hugar undir með honum. Ég tel að þetta verði til þess að styðja verulega við íslenskuna.

Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir alveg einstaklega góða vinnu. Mér þykir vænt um hana og mér þykir vænt um hversu mikið allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt á sig til að styrkja þingsályktunartillöguna. Mér finnst þetta dæmi um vinnubrögð sem við eigum að tileinka okkur enn frekar í þinginu.