149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

höfundalög.

797. mál
[21:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað aðeins til að gera grein fyrir fyrirvaranum sem ég hafði við nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar um málið. Ég styð málið, tel það mjög gott og mikilvægt. Það snýst í raun og veru um það að höfundaréttur komi ekki í veg fyrir að fólk geti notað þjónustu milli landa, t.d. streymisþjónustu eins og Spotify. Mér finnst þess virði að nefna að það að sannreyna hvar fólk er staðsett á internetinu er í fyrsta lagi ekki auðvelt og jafnvel getur það verið ómögulegt ef það er ásetningur notandans að fela hvaðan hann kemur. Það sem mér finnst mikilvægt að komi fram og sé á hreinu er að það er að mínu mati skýlaus réttur notandans að fela það frá hvaða landi hann kemur. Mér finnst mjög mikilvægt að notendur geti falið það að þeir séu t.d. á Íslandi, í Sádi-Arabíu, Norður-Kóreu eða hvar sem er. Sjálfur er ég áskrifandi að þjónustu sem gerir mér þetta kleift með einni skipun, einum músarsmelli myndi venjulegt fólk segja, þar sem ég get valið frá hvaða landi ég kem til að skoða internetið. Þetta geri ég oft til þess að athuga t.d. hvort eitthvað sé bilað. Ef ég kemst ekki inn á einhvern vef athuga ég t.d. hvort hann virki í Noregi, Þýskalandi eða Suður-Kóreu. Sömuleiðis getur verið fróðlegt að skoða internetið aðeins frá öðrum löndum því að vefir laga sig náttúrlega að notendum og því hvaðan þeir koma, Google sérstaklega. Stundum fer ég í gegnum Finnland vegna þess að mér þykir vænt um Finnland, ég bjó þar í eitt ár, og þá verður allt í einu allt internetið á finnsku sem mér finnst stundum ægilega fyndið.

Það er mjög mikilvægt að þetta sé mögulegt. Það er mikilvægt að pólitíkin fari ekki að þróast í þá átt að reyna einhvern veginn að koma í veg fyrir það. Það er ekkert í þessu sem kemur í veg fyrir það en í 5. gr. reglugerðarinnar virðist samt vera smávægileg tilraun til að skylda fólk til að sannreyna búsetuaðildarríki áskrifandans sem er gott og blessað en maður veltir fyrir sér hvernig. Aðferðirnar eru aldrei alveg fullkomnar og verða vonandi aldrei. Það er sá fyrirvari sem ég hef á málinu, það er vonandi þannig að við munum alltaf geta notað netið og hulið það hvar við búum og hvar við erum.

Að því sögðu tek ég fram að málið er gott. Það skemmir ekkert fyrir þessu mikilvæga gildi. Mér fannst bara rétt að þetta kæmi fram til þess að kynslóðir framtíðarinnar sem fara að fletta upp í þingræðum kl. 21.50 í kvöld um höfundaréttarmál og höfundaréttarmál hjá EES hafi a.m.k. heyrt þetta sjónarmið fyrst þær eru að eyða tíma sínum í að garfa í því.