150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Sá gleðilegi atburður varð hér í gær að loksins var skilað svari við fyrirspurn minni sem hefur verið lögð fram sjö sinnum, fyrst fyrir rúmum tveimur og hálfu ári. Það varðar sölu og meðferð á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs á árunum 2008–2019 og kemur fram í svarinu að hér er um að ræða 4.210 íbúðir sem voru seldar fyrir u.þ.b. 72 milljarða.

Ég vil nota tækifærið og þakka forseta fyrir liðveislu í þessu máli — það er búið að vera ansi harðsótt — og einnig starfsmönnum þingsins sem hafa komið að því. Eins og við vitum öll er eftirlitsskylda þingmanna mjög rík og fyrirspurnaréttur þeirra er tryggður, bæði í stjórnarskrá og í þingskapalögum og þess vegna er mjög áríðandi að framkvæmdarvaldið liggi ekki á upplýsingum sem eru nauðsynlegar fyrir þingmenn til að halda uppi eftirlitshlutverki sínu. Það leiðir hugann að því að auðvitað þarf að vinna úr þessu svari. Það verður töluverð vinna og athyglisverð.

Þessi úrslit í gær leiða hugann að því að annað mál er í gangi núna sem varðar störf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. aðgang þingmanns að frumskýrslu setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols. Málefni Lindarhvols eru núna til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af því að komin er fram lokaskýrsla ríkisendurskoðanda. Ekki verður hægt að vinna það mál til lykta nema bera saman þessi tvö plögg. Þess vegna heiti ég á forseta að vera jafn mikill liðveislumaður í því að þessar upplýsingar verði gerðar aðgengilegar þingmanni líkt og gert var í því tilfelli sem ég nefndi hér áðan.