150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fjórði orkupakkinn er í sjónmáli. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn minni um mat á fjórða orkupakkanum. Þar er lýst hefðbundinni aðferð með skipan vinnuhóps og öðru í þeim dúr. Ekkert er minnst á að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir sem reyndust þýðingarmiklar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakkann en komu seint fram.

Helstu fjölmiðlum austan hafs og vestan ber saman um að dómur þýska stjórnlagadómstólsins, 5. maí sl., sé eins konar lögfræðilegt eldgos á vettvangi Evrópusambandsins. Dómurinn ber með sér yfirlýsingu um að Þýskaland sé sjálfstætt ríki sem aðild á að samstarfi fullvalda ríkja en ekki runnið inn í evrópskt ríkjasamband. Þetta á jafnt við um okkur. Við Íslendingar getum ekki látið undan kröfum um afsal forræðis yfir auðlindum okkar. Raforkan er ekki eina dæmið um þjóðarhagsmuni. Innflutningur hráa kjötsins ógnar dýraheilbrigði og lýðheilsu og verður að hrinda með lagasetningu. Tími er kominn til að Íslendingar spyrni fast við fótum og fari þar að dæmi Þjóðverja í liðnum mánuði.

Í tilefni af svari ráðherra er rétt að árétta að hinn stjórnskipulega þátt og aðrar lögfræðilegar spurningar sem snúa að fjórða orkupakkanum þarf að kanna mun fyrr í ferlinu en gert var. Nú er rétti tíminn til að leita álits sérfræðinga á fjórða orkupakkanum áður en það er um seinan.