150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:42]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Tvær af fréttum morgunsins fengu mig til að hugsa um stöðnun annars vegar og óreiðu eða ringulreið hins vegar. Það var annars vegar árás Norður-Kóreumanna á samráðsskrifstofu á Kaesong-iðnaðarsvæðinu og hins vegar átök kínverskra og indverskra herja í Galwan-dalnum. Í báðum tilfellum er um að ræða eldgamlar staðnaðar deilur sem eru núna að breytast í ákveðna ringulreið.

Í kerfisfræðum er stundum vísað í hugtakið jaðar óreiðunnar með tilvísun í það að ef stöðnun er of mikil þá gerist ekki neitt. Alkul er skilgreint sem skortur á þrýstingi og hreyfingu en ef óreiða eða ringulreið er of mikil þá virka hlutirnir heldur ekki, það leysist allt upp. Við leitumst alltaf eftir einhverju jafnvægi og jafnvægi í stjórnmálum bæði innan lands og utan kallar auðvitað á að við sem stundum stjórnmál reynum að finna þetta jafnvægi, reynum að vera á jaðri óreiðunnar öllum stundum. Og þegar við horfum til baka yfir þetta ár, þar sem hefur kannski verið fullmikil ringulreið, að flestra mati held ég, með Covid og mótmælin í Bandaríkjunum og víðar og ýmis vandræði í gangi, þá verður maður að spyrja: Höfum við ekki mikla og ríka skyldu til að reyna að draga aðeins úr óreiðunni núna og svo gefa kannski í seinna þegar stöðnunin er orðin of mikil?

Mig langar í lokin að benda á góða grein Gauta B. Eggertssonar í Kjarnanum í morgun um heift og blindni á eðlilegar siðvenjur, sem stendur stundum í vegi fyrir að við getum fundið þetta jafnvægi. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvenær er of mikil óreiða, hvenær of lítil og reynum að haga samfélaginu eftir því.