150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

störf þingsins.

[12:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Síðustu ár hefur orðið mikil vitundarvakning um matarsóun, enda er um þriðjungi matvæla sem við kaupum hent með tilheyrandi sóun og sótspori. Við neytendur berum þar öll ábyrgð en við erum ekki ein. Sennilega hefur einhver stærsta einstaka matarsóun síðari tíma átt sér stað vegna kórónufaraldursins. Erlendis, þar sem hagkvæmnin ein hefur ráðið ríkjum, gerðist það að stórum sláturhúsum og afurðastöðvum varð að loka vegna þessa faraldurs. Gríðarlega mikil sóun hlaust af því þar sem farga þurfti sláturdýrum og hella niður mjólk og grænmeti rotnaði á ökrum. Þetta er til áminningar um það að til þess að við séum örugg um okkar matvælaframleiðslu verður einnig að hafa í huga að þanþolið í kerfinu sé í lagi, að við séum ekki með öll eggin í sömu körfunni. Fæðuöryggi snýst ekki eingöngu um það að við framleiðum nægan mat hér heldur líka að við getum komið honum á markað til landsmanna.

En af hverju er ég að tala um þetta hér? Verð á ýmsu grænmeti hefur hækkað vegna þess að framboð á því minnkaði af því það fengust ekki farandverkamenn í Evrópu í uppskeruna. Þess vegna og í því samhengi verð ég að segja að það er afar ánægjulegt að við séum búin að semja við íslenska garðyrkjubændur um að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu árum. Við getum lítil áhrif haft á það sem gerist úti í hinum stóra heimi en við getum séð til þess að við framleiðum stærri hlut af því sem við borðum hér heima með skynsamlegum hvötum í samningum sem draga úr sótspori landbúnaðar og auka framleiðni. En um leið verðum við alltaf að huga að því vel og vandlega þegar við kaupum inn að við ætlum að nýta það en ekki að henda.