150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[14:18]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina og veit að borgarlínan virðist ætla að vera heita kartaflan í þessari samgönguáætlun. Ég lít svo á að þegar samkomulag er gert um borgarlínu — eða ekki borgarlínu heldur verð ég að leiðrétta mig, þ.e. framkvæmdir á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta er auðvitað miklu meira en borgarlínan ein. Við getum kallað þetta borgarlínu okkur til hugarhægðar og við vitum hvað við erum að tala um. Við erum að tala um samkomulag allra sveitarfélaganna á höfuðborgasvæðinu og ríkisins og verðmiðinn er einhvers staðar á bilinu 110–120 milljarðar. Til að koma þessu á getur enginn sest niður og reiknað út arðsemismatið einn og sjálfur. Þetta er líka samvinnuverkefni þeirra sem að því standa og þess vegna er búið að búa til ólíkar sviðsmyndir af því hvað kostar að halda áfram uppbyggingu eins og nú er.

Hvað væri fengið með borgarlínunni eins og hún er í sinni ýtrustu mynd með sínum þremur leiðum og öllu sem því fylgir, stokkalagningum, stofnbrautum o.s.frv.? Einhver blanda af þessu er til. Vissulega er búið að ramma verkefnið inn en hið eiginlega kostnaðarmat, við skulum segja á nýrri ljósastýringu sem er metin upp á u.þ.b. 7 milljarða, getur ekki farið fram fyrr en búið er að stofna félag utan um þetta fyrirbæri og að aðilar setjist niður saman og vinni þessa vinnu. Þetta er svipað og með PPP verkefnin. Það er verið að opna á lausn á brýnum málum í báðum (Forseti hringir.) tilvikum en útfærslan sjálf er eftir að nokkru leyti.