150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Við ræðum það sem eru mögulega stærstu áætlanir sem hið opinbera gerir hér á landi, samgönguáætlun til fimm ára annars vegar og 15 ára hins vegar. Það munaði minnstu að framsögumaður álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar gleymdi að fara með línuna sem hann fer alltaf með þegar samgöngumál ber á góma, sem er lína sem mér þykir orðið dálítið vænt um. Það er þegar hv. þm. Vilhjálmur Árnason segir að samgöngumál séu velferðarmál vegna þess að öryggi í umferðinni skipti velferð almennings miklu máli, minni mengun af völdum umferðar sömuleiðis og svo mætti lengi telja.

Eins og við er að búast eru með þessari nýju samgönguáætlun boðaðar talsverðar úrbætur í öryggismálum. Það verður gott að sjá á eftir þeim fjölmörgu einbreiðu brúm sem til stendur að afleggja og brúa á læki og ár með öruggari hætti. Sömuleiðis verður gott að sjá ýmsa fjallvegi, sem eru illfærir á vetrum og hættulegir eftir því, ýmist bætta eða þeim skipt út fyrir jarðgöng eða aðrar leiðir.

Samgönguáætlun er ekki bara stærsta velferðarmálið heldur er það líka á síðustu árum jafnvel enn frekar stærsta loftslagsmálið vegna þess að sá grunnur sem lagður er með samgönguáætlun í dag verður grundvöllur umferðar hér á landi eftir marga áratugi, langt inn í öll þau fyrirsjáanlegu skuldbindingartímabil allra loftslagssamninga framtíðarinnar sem fram undan kunna að vera. Það er kannski ágætt að nefna þetta einmitt núna þegar fréttir berast af því að Ísland sé með allt niður um sig þegar kemur að því að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-samkomulaginu. Á tímabili sem lýkur á þessu ári skuldbatt Ísland sig til að draga úr losun um 20% miðað við árið 1990 en stefnir í að auka losun á tímabilinu um 30%. Það er ekki góður árangur. Nýjasta ársskýrsla Umhverfisstofnunar, sem nær yfir árið 2018, sýnir að losun af völdum vegasamgangna jókst um 2,7% milli áranna 2017 og 2018. Það skiptir okkur miklu máli vegna þess að af vegasamgöngum kemur um þriðjungur þeirrar losunar sem er beint á ábyrgð stjórnvalda að taka á, það er sem sagt utan allra alþjóðlegra viðskiptakerfa með losunarheimildir, eins og stóriðjan. Þetta er það sem aðallega ríkið, í samstarfi við sveitarfélög, þarf að leysa, en árið 2017–2018 fórum við í vitlausa átt. Þess vegna þarf samgönguáætlun sem samþykkt er árið 2020 að miða að því að við stöndum ekki frammi fyrir því eftir áratug að losun hafi aftur aukist þannig að við stöndum ekki við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins, sem fer að taka við. Við erum sem sagt að leggja grunn að árangri með því að byggja í dag upp samgöngur framtíðarinnar.

Það sem er kannski stærsta lóðið á vogarskálarnar í þeirri samgönguáætlun sem við ræðum hér er borgarlína sem hefur alla burði til að breyta gríðarlega losun á þéttbýlasta svæði landsins, höfuðborgarsvæðinu, með því að færa hluta af umferðinni úr einkabílum yfir í almenningssamgöngur. En það þarf meira til og það þarf að meta heildstætt hver áhrif áætlunarinnar eru.

Herra forseti. Ég þreytist ekki á að minna á þau góðu orð sem standa í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna um loftslagsmál. Þar stendur, í kafla sem hefst á þeim orðum að ríkisstjórnin vilji gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.“

Það er bara aldrei gert. Það þýðir ekki að við þurfum að vita nákvæmlega hvaða losun verði við hvaða framkvæmd fyrir sig eða nákvæmlega hvað hver framkvæmd hefur í för með sér við þær breytingar á samgöngumynstri sem við þær verða, en ekki er einu sinni gerð tilraun til að áætla grófu drættina í þessari áætlun, ekki frekar en var gert fyrir ári þegar áætlun var lögð fram síðast. Það er mjög bagalegt. Það er mjög erfitt, þegar við horfum fram í tímann og leggjum grunn að samgöngum framtíðarinnar sem verða að vera grænar til þess að við stöndumst skuldbindingar okkar, að við getum ekki sagt hvort nettóáhrif þeirrar samgönguáætlunar, þegar allt er tekið til, séu jákvæð eða neikvæð fyrir loftslagsmál.

Ég nefndi hér að borgarlína og efling almenningssamgangna væri öflugt verkfæri til að draga úr losun. Þær framkvæmdir tengjast samkomulagi sem gert var á milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á samgönguinnviðum á svæðinu næstu 15 árin, samkomulag sem hefði mátt meta út frá loftslagsáhrifum sömuleiðis vegna þess að á sama tíma og lagðar eru til framkvæmdir við borgarlínu eru lagðar til ýmsar hefðbundnari stofnleiðaframkvæmdir sem aukið geta umferðarrýmd og þar með aukið losun, sem við vitum ekki hvort mun mögulega núlla út þann ábata sem er í hendi með borgarlínu. Það eitt og sér er ákveðið áhyggjuefni, en síðan þegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar bætir Sundabraut inn í samgönguáætlun, sem áður var bara nefnd í greinargerð, horfir málið enn verr við. Sundabraut er framkvæmd sem hefur, eins og fram hefur komið í umræðum hér, verið til umfjöllunar áratugum saman en enn hefur ekki verið fjallað um útfærslu á henni sem ekki verður til þess að auka heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu í gegnum framboðsstýrða eftirspurn. Áður en við setjum þá framkvæmd inn í samgönguáætlun væri æskilegra að ganga frá þeim lausu endum.

Í umræðum um Sundabraut hefur mér líka þótt gæta ákveðinnar tortryggni í garð stjórnvalda á höfuðborgarsvæðinu og kannski sérstaklega Reykjavíkurborgar, sem í einni af fyrri ræðum var hreinlega sögð vera á móti Sundabraut og hafa sýnt hálfgert skipulagslegt ofbeldi, eins og það var kallað. Hugmyndin er enn þá það lausreifuð að við vitum ekki hvort hún yrði til bóta eða ekki. Ekki hefur verið gerð greining á því hverju viðlíka fjárfesting í öðrum samgöngukostum gæti skilað í formi ábata til samfélagsins. Helsti kostur Sundabrautar og helsta ástæða þess að hún er komin þetta ofarlega í umfjöllun er hvað hún passar vel inn í módelið um samvinnuverkefni, sem fjallað er um í frumvarpi sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd, svokallað PPP-frumvarp. Það virðist vera mikið til lausn í leit að vanda sem á að leysa. Sá vandi sem PPP-frumvarpið á að leysa er óljós. Það virðist umfram allt vera hugsað til þess að koma fjárhagsskuldbindingum varðandi stærri samgönguframkvæmdir fram hjá grunnbókhaldi ríkisins til þess að uppfylla einhver viðmið í lögum um opinber fjármál. Umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar frá fjármálaráðuneytinu benda á að ekki einu sinni þessi bókhaldsbrella virðist endilega ganga upp, a.m.k. ekki varðandi allar þær framkvæmdir sem þar eru nefndar, þannig að þrátt fyrir að farið verði í PPP-framkvæmd á sumum þeirra leiða þyrfti hvort eð er að bókfæra eign og skuld hjá A-hluta ríkissjóðs, þannig að brellan virkar ekki. Þetta eru framkvæmdir sem öll gögn sýna að verði dýrari en hrein ríkisframkvæmd, allt að þriðjungi, og þetta rífur í versta falli úr samhengi þá forgangsröðun sem birtist í samgönguáætlun. Samgönguáætlun snýst um að forgangsraða út frá þjóðhagslegum grunni en PPP virkar þannig að það er einhver fjárhagslegur grunnur undir einstökum framkvæmdum sem ræður því hvort þær eru teknar fram fyrir í röðinni eða ekki. Það finnst mér skjóta nokkuð skökku við á sama tíma og t.d. er lagt til í þeirri samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar að útbúin verði sérstök jarðgangaáætlun, sem er mjög ánægjuleg þróun, sem sést mjög langt fram í tímann; framtíðarsýn um greiningu og forgangsröðun á jarðgangakostum sem verði síðan ráðist í á grundvelli samfélagslegra sjónarmiða.

Svo eru hérna smærri atriði sem mig langar aðeins að víkja að, tengd því hvernig þessi samgönguáætlun spilar saman við stefnumörkun stjórnvalda að öðru leyti. Ég les hér, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur áherslu á að áætlanir og áform stjórnvalda varðandi orkuskipti og loftslagsmál taki mið af samgönguáætlun og innviðauppbyggingu samgangna.“

Svo eru nefndar bílaleigur, þungaflutningar á landi, rafvæðing hafna og ýmislegt annað. Mér finnst þessi setning draga það saman á ákveðinn hátt að verið sé að byrja á öfugum enda vegna þess að samgönguáætlun á að taka mið af áætlunum varðandi orkuskipti og loftslagsmál. Þetta á að vera unnið í miklu meiri samfellu. Að þessi setning birtist hér og virki eins og hér sé byrjað á öfugum enda sýnir kannski betur en margt annað hvað það hefði verið æskilegt að sjá loftslagsmat á áætluninni, vegna þess að ef við búum til samgönguáætlun sem stendur þau 15 ár sem hún á að gilda, sem sagt fimm árum lengur en skuldbindingartímabil Parísarsáttmálans, þarf hún að vera unnin, ekki bara með hliðsjón heldur í fullu samræmi við áætlanir stjórnvalda varðandi orkuskipti og loftslagsmál. Það kann að vera að ýmsar þær framkvæmdir sem hér eru undir verði til þess, en án greiningar er erfitt að segja hvort nettóáhrifin verði til góðs eða ekki og þar sem árið er 2020 þá er það bagaleg staða.