150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:03]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski við mig að sakast. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns og ég trúði varla að hv. þingmaður myndi ekki minnast á borgarlínuna í þessu samhengi þar sem flokkssystkin hv. þingmanns hérna hinum megin við götuna, í ráðhúsinu, hafa unnið ötullega að því að ná saman um hana þar sem samgöngusáttmáli á höfuðborgarsvæðinu gerir beinlínis ráð fyrir flýti- og umferðargjöldum sem eigi að ná framangreindum markmiðum sem farið er yfir í samkomulaginu; þeim er ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði, svo sem fjármagnskostnaði, rekstri umferðargjaldakerfisins og félagsins.

Ég hefði bara ekki trúað því, forseti, að þau tíðindi myndu gerast að hv. þingmaður væri svona algerlega andsnúinn flokkssystkinum sínum í ráðhúsinu og þykja það sannarlega mikil tíðindi. Hefði ég verið í mínu gamla starfi sem blaðamaður væri ég nú að skrifa forsíðufrétt morgundagsins.