150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki fylgst nægilega vel með því að það segir líka í höfuðborgarsáttmálanum: „eða með einhverri annarri fjármögnun“. Það er skoðun okkar að við getum fjármagnað þetta á annan hátt en með umferðar- og flýtigjöldum. Og ef hv. þingmaður spyr flokkssystkini mín í borgarstjórn þá hef ég heyrt nákvæmlega það sama frá þeim.

Ég veit ekki hvaða forsíðufrétt gæti orðið til úr þessu. En breytingartillagan er undir kaflanum um hagkvæmar samgöngur. Ég held að ég hafi farið þokkalega vel yfir af hverju ég tel veggjöld sem eru ekki með þeim skilyrðum sem ég fjallaði um varðandi PPP, ekki vera hagkvæm fyrir neinn notanda, einungis fyrir framkvæmdaraðilann sem fær gefins arðinn af slíkri framkvæmd nema hún sé það seint í forgangsröðuninni að samfélagslegur kostnaður myndi safnast upp þar á móti.