150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nokkrar spurningar um eitt í ræðu þingmannsins og það er þessi títtnefnda skoska leið. Ég man satt best að segja ekki eftir því að við höfum fengið greinargóðar upplýsingar eða kynningu á því, nema að mjög litlu leyti, nákvæmlega hvernig fyrirkomulagið á þeirri leið er í Skotlandi.

Þær upplýsingar sem ég man eftir að við höfum fengið í hendurnar varðandi skosku leiðina, eins og hún var kynnt fyrir okkur, var að um væri að ræða flugleiðir til mjög afskekktra staða. Það er allt öðruvísi fyrirkomulag en það sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun. Þegar allt kemur til alls er þetta kannski frekar íslenska leiðin en skoska leiðin ef maður á að bera saman þessar tvær aðferðir.

Kannski er eitthvað sameiginlegt en við höfum hvorki fengið nákvæmar lýsingar á því hvernig útfærslan hefur verið né hvernig hún hefur gengið sérstaklega. Af hverju ættum við að taka upp skoska leið ef hún var sett upp í Skotlandi og gekk t.d. ekki? Það væri þá alla vega spurning fyrir okkur hvort hún myndi nokkuð frekar ganga vel hjá okkur þegar allt kemur til alls. Tökum aðeins almenningssamgöngur sem flugferðir næst.